Greiðslubyrðin getur lækkað um 20%

mbl.is

Greiðslubyrði verðtryggðra fasteignalána gæti lækkað um allt að 10% í desember hjá þeim sem nýta sér svokallað greiðslujöfnun. Lækkun afbotgana af 30 milljóna króna lána á 5% vöxtum til 40 ára gæti lækkað um rúmar 16 þúsund krónur í desember.

Ríkisstjórnin hefur samþykkt að leggja fyrir Alþingi frumvarp félags- og tryggingamálaráðherra, Jóhönnu Sigurðardóttur, um breytingu á lögum um greiðslujöfnun fasteignalána til einstaklinga. Markmið frumvarpsins er að koma í veg fyrir að misgengi sem nú er að verða milli launa og lána leiði til aukinnar greiðslubyrði vegna fasteignaveðlána. Frumvarpið er lagt fram í samræmi við tillögur starfshóps um verðtryggð lán heimilanna sem starfað hefur á vegum félags- og tryggingamálaráðherra.

Lántakandi þarf að sækja um greiðslujöfnun

Verði frumvarpið að lögum geta viðskiptavinir allra lánastofnana sem eru með verðtryggð fasteignalán óskað eftir greiðslujöfnun lána sinna, telji þeir að það þjóni hagsmunum sínum. Miðað við fyrirhugaða gildistöku laganna lækkar greiðslubyrði verðtryggðra fasteignalána um allt að 10% í desember hjá þeim sem nýta sér úrræðið. Miðað við efnahagsspá Seðlabankans er áætlað að greiðslubyrði þessara lána verði í lok næsta árs um 17% lægri en ella hefði orðið án greiðslujöfnunar.

Greiðslubyrði verðtryggðra lána hefur vaxið ört að undanförnu vegna mikillar verðbólgu, samhliða því að kaupmáttur fólks hefur rýrnað. Við þessar aðstæður þyngist greiðslubyrði fólks af verðtryggðum fasteignalánum verulega vegna þess misræmis sem verður milli lána og launa. Tilgangur greiðslujöfnunarleiðar frumvarpsins er að bjóða lánshöfum leið til þess að brúa þetta erfiða tímabil með því að létta greiðslubyrðina tímabundið meðan niðursveiflan gengur yfir.

Hluti afborgana á sérstakan jöfnunarreikning

Aðferðin við greiðslujöfnun felst í því að reiknuð verður ný vísitala, svonefnd greiðslujöfnunarvísitala sem gefin verður út mánaðarlega. Í greiðslujöfnunarvísitölunni verða vegin saman launaþróun samkvæmt launavísitölu Hagstofu Íslands og þróun atvinnustigs samkvæmt mælingum Vinnumálastofnunar. Ef afborganir samkvæmt þessari vísitölu reynast lægri en afborganir samhvæmt vísitölu neysluverðs, sem er grundvöllur verðtryggingar verðtryggðra lána, er þeim hluta af afborgunum fasteignalánsins sem nemur mismuninum frestað þar til greiðslujöfnunarvísitalan hækkar á ný umfram neysluvísitöluna.

Sá hluti afborgana sem frestast er færður á sérstakan jöfnunarreikning sem bætist við höfuðstól lánsins. Þegar og ef afborganir af láninu, reiknað samkvæmt greiðslujöfnunarvísitölunni eru aftur á móti hærri en afborganir reiknað samkvæmt neysluvístölu greiðist mismunurinn inn á jöfnunarreikninginn til lækkunar höfuðstóls lánsins. Sé skuld á jöfnunarreikningi við lok upphaflegs lánstíma er lánstíminn lengdur.

Engin gjaldtaka fyrir greiðslujöfnun

Eins og fyrr segir munu allir sem eru með verðtryggð fasteignalán, hvort sem þeir eru í viðskiptum við opinberar lánastofnanir, lífeyrissjóði eða önnur fjármálafyrirtæki með starfsleyfi hér á landi, eiga rétt á greiðslujöfnun lána sinna samkvæmt frumvarpinu, óski þeir eftir því. Slíkri umsókn skal koma á framfæri við viðkomandi lánastofnun og skal hún vera umsækjanda að kostnaðarlausu. Hægt er að segja sig frá greiðslujöfnun síðar á lánstímanum breytist aðstæður lánsþega til betri vegar.

Aukinn kostnaður

Sérstök athygli skal vakin á því að greiðslujöfnun mun í raun leiða til aukins kostnaðar fyrir lántaka þegar upp er staðið í formi vaxta og verðbóta. Því er ekki sjálfgefið að lánshafar kjósi eða hafi hag af greiðslujöfnuninni þótt hún létti vissulega greiðslubyrði af láni tímabundið í niðursveiflu og geti þannig létt á efnahag heimilanna í landinu og þá einkum þar sem staðan er þröng fyrir.

Efnt verður til ítarlegrar kynningar á á þessum valkosti við gildistöku laganna. Þá fyrst mun endanleg afgreiðsla Alþingis liggja fyrir og þar með þær reglur sem gilda munu í raun.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert