Guðni vill skoða ESB-aðild

mbl.is/Kristinn

Formaður Framsóknarflokksins segir ekki lengur hægt að útiloka ESB-aðild. Vera kunni að Íslendingar hafi ekki annan valkost en að hefja aðildarviðræður og upptöku evru. Hann vilji því ekki lengur fyrirfram útiloka skoðun á ESB-aðild, sé vilji til þess í flokknum. „Í því ástandi sem nú er uppi í landinu megum við ekki njörva okkur föst í afstöðu sem var góð og gild áður en allt hrundi,“ sagði Guðni Ágústsson formaður Framsóknarflokksins í ræðu á miðstjórnarfundi flokksins í morgun.

Guðni fór yfir aðdraganda bankahrunsins og aðgerðir sem í kjölfarið fylgdu. Hann gagnrýndi ríkisstjórnin harkalega og sagði samstöðuleysi einkennandi þar á bæ. Ríkisstjórnin hefði verið aðgerðarlaus og ábyrgðarlaus í aðdraganda bankahrunsins. Þrátt fyrir ítrekuð viðvörunarorð hefði ríkisstjórnin lokað augunum fyrir aðsteðjandi vanda. Þá hefði vörn ríkisstjórnarinnar verið vanmáttug þegar Bretar beittu hryðjuverkalöggjöf gegn Íslandi og allar þjóðir heimsins lokuðu í kjölfarið hurðum sínum og skúffum.

„Þeir beittu okkur lögum sem eru fáheyrð og eiga sér engin fordæmi. Vopnalaus, friðelskandi lítil þjóð stóð eftir rúin trausti. Nú liggur það fyrir að 27 ríki ESB meina okkur aðgang að dómstóli þó að samningurinn um EES staðfesti að Icesave innistæðurnar séu samkvæmt samningi og lögum um EES. Bretar koma því miður sínum vilja fram í Evrópu. Þetta er kúgun af hálfu Evrópuþjóðanna og vina okkar á Norðurlöndum. Ég virði framgöngu forseta Íslands, Ólafs Ragnars Grímssonar, sem segir það sem ríkisstjórninni bar að segja við þessar aðstæður. Enn fremur er Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn misnotaður í þeim tilgangi að misbjóða sínum grundvallarsjónarmiðum. Varnarlausir skulum við yfirtaka skuldbindingar umfram lög og samninga. Í landhelgisstríðunum áttum við hugdjarfa forystumenn, nú er öldin önnur. Ég hef aldrei séð aumari vörn og það vekur undrun margra manna um víða veröld. Öll spjót standa á okkur segir forsætisráðherra. Hvar er atgeirinn Geir H. Haarde?,“ spurði formaður Framsóknarflokksins.

Í drögum að ályktun sem liggur fyrir miðstjórnarfundi Framsóknarflokksins segir að marka þurfi nýja stefnu í gjaldmiðilsmálum. Guðni segir að einhliða upptaka evru, í andstöðu við ESB, líkt og margir tala um í dag, þýddi að Ísland yrði áfram í vondum málum í Evrópu. Ísland þurfi að ávinna sér traust og fá heiðarleikastimpil í samfélagi þjóðanna á ný.

„Það er aftur á móti viðurkennt að við gætum tekið upp dollar en ég ætla ekki hér að fullyrða að það sé skynsamlegt eða henti íslensku atvinnulífi. Margir hér og í þjóðfélaginu vilja nú íhuga enn frekar evru og ESB leið. Sjálfstæðisflokkurinn er 7 árum á eftir okkur í vinnu í kringum hugsanlega Evrópusambandsaðild. Sú vinna sem nú fer þar í hönd mun reyna á Sjálfstæðisflokkinn, þeir klofna jafnvel bæði langsum og þversum.

Guðni segir ljóst að mikið vantraust ríki á íslensku krónunni og sú staða kunni að vera uppi nú að Íslendingar hafi ekki annan valkost en að hefja viðræður við Evrópusambandið um aðild að sambandinu, gengisstöðugleikasamning veið evrópska seðlabankann og í framhaldinu upptöku evru sem gjaldmiðils.

„Þekkt er að ég hef haft efasemdir í málinu sem meðal annars rísa af sjálfstæðishyggju ungs lýðræðis og frelsisþrá þjóðar sem var öldum saman undir erlendu valdi. Hins vegar vil ég ekki lengur fyrirfram útiloka skoðun á þessum valkosti, jafnvel með viðræðum, sé vilji til þess í flokknum. Í því ástandi sem nú er uppi í landinu megum við ekki njörva okkur föst í afstöðu sem var góð og gild áður en allt hrundi,“ sagði Guðni Ágústsson.

Guðni segir krónuna aónýta. Jafnvel þó Seðlabankinn hefði hækkað stýrivexti í 30% í stað 18%, þá hefði enginn gjaldeyrir komið inn í landið.

„Ísland býr við vantraust, það þorir enginn að koma um sinn með peninga sína inn í land sem gengið hefur í gegnum slíkar hremmingar. Margir hagfræðingar óttast leið gjaldeyrissjóðsins. Henni muni fylgja okurvextir, valdaframsal ríkisvalds og sveitarfélaga. Sjúklingurinn verði lagður á gjörgæslu í 5 ár með óbærilegri lyfjagjöf og vonleysi, viðvarandi atvinnuleysi verði þjóðarböl. Sú leið kann að vera skárri að keyra stýrivexti strax í 5%, taka ekkert erlent lán og leyfa um sinn genginu að falla. Ekkert er verra en gamaldags höft og skömmtun á gjaldeyri. Þess vegna verður að vega og meta öll rök áður en gengið er að skilyrðum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.“

Guðni sagði nauðsynlegt að hefja hér framleiðslustefnu, auka veiðar úr sjó, ráðast í stórframkvæmdir sem eru fyrirliggjandiefla menntun og framkvæmdir á sviði nýsköpunar og hugvits, en ekki síður að nýta þann hæfilekaríka mannauð sem býr í fólkinu í landinu með öflugum stuðningi við lífvænleg sprotafyrirtæki.

Guðni segir tilgangslaust að tala um nýtt Ísland og uppbyggingarstarf eftir bankahrun nema allt verði undir í þeirri víðtæku rannsókn sem fyrirhuguð er.

„Við viljum sannleikann upp á borðið. Brást Alþingi, brugðust ráðherrar og ráðuneyti fyrir og eftir stjórnarskipti? Brást Seðlabanki, brást Fjármálaeftirlitið? Nýtt Ísland rís ekki í sátt nema sannleikurinn komi fram. Alþingi ber að styrkja, aðskilja verður sem fyrst löggjafar- og framkvæmdavaldið. Sterkara Alþingi hefði hugsanlega komið í veg fyrir þennan hrunadans.“

Guðni sagðist telja að þjóðstjórn kæmi enn til greina. Vandinn væri  risavaxinn en þá aðeins að 3 til 4 ráðherrar yrðu kallaðir inn í þá stjórn, utan stjórnmálaflokkanna til að skapa sátt í ljósi þess að stjórnmálamenn hefðu misst tiltrú um sinn. Kosningar færu svo fram innan árs.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka