Íslensk þjóðarsál í sárum

Erlendir fjölmiðlar fjalla þessa dagana mikið um örlög Íslands. Kanadíska blaðið The Globe and Mail birtir m.a. í dag langa grein eftir blaðamanninn Matthew Hart, sem reynir að varpa ljósi á íslenska þjóðarsál.

Úr greininni má lesa, að lykilinn að skilningi á Íslendingum sé m.a. að finna í Íslendingasögunum. Haft hefur eftir Þorbirni Broddasyni, prófessor, að hin íslenska siðfræði, sem Íslendingasögurnar hafi mótað, auki til muna á þá þjáningu, sem Íslendingar þurfi nú að þola vegna efnahagsvandans.

„Við teljum okkur vera afkomendur heiðvirðs fólks. Íslendingasögurnar fjalla um hefnd en einnig um heiður og nú erum við óheiðarleg þjóð. Við höfum hagað okkur eins og börn og ekki kunnað fótum okkar forráð og skaðað fólk í öðrum löndum. Ég tel að öðrum Íslendingum sé eins innanbrjósts," segir Þorbjörn.

Haft hefur eftir bandaríska fræðimanninum Jesse Byock að Íslendingasögurnar hafi lýst hinum harða veruleika. „Þetta eru ekki ævintýrasögur. Ef þú varst einn, og fimm menn eltu þá voru örlög þín ráðin. Í Íslendingasögum koma engir fljúgandi drekar til bjargar. Þetta eru bókmenntir þjóðfélags, sem kenna hvernig á að lifa í samræmi við lögin. Menning Íslendinga gerir þeim kleift, að fást við erfiðleika. Ég held að þeir séu frekar stoltir af því," segir  Byock.

Grein Globe and Mail

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert