Þúsundir mótmæla á Austurvelli

mbl.is/Kristinn

Töluverður mannfjöldi er saman kominn á Austurvelli til mótmælafundar. Þetta er sjötti laugardagurinn í röð sem efnt er til mótmæla vegna kreppuástandsins. Þung umferð var á helstu leiðum að miðborginni og segir blaðamaður mbl.is að umferðarþunginn sé líkt og á Menningarnótt.

Hörður Torfason opnaði fundinn á Austurvelli og spurði mannfjöldann hvort víkja ætti stjórn Seðlabankans burt, stjórn Fjármálaeftirlitsins og því sem hann kallaði spillingaröflin. Mannfjöldinn svaraði játandi. Hörður kallaði eftir breyttum stjórnarháttum, afsögn ríkisstjórnar og kosningum í kjölfarið og uppskar hátt og snjallt já frá mannfjöldanum.

Meðal annarra ræðumanna á Austurvelli eru Andri Snær, rithöfundur, Viðar Þorsteinsson heimspekingur og Kristín Helga Gunnarsdóttir, rithöfundur.

Viðar sagði gjörspillta klíku ráða hér ríkjum, ekki ríkti lýðræði á Íslandi. Viðar fullyrti að fjölmiðlar tækju vísvitandi þátt í spillingunni með því að verja spillingaröflin og ljúga að almenningi í umfjöllunum sínum um friðsamleg mótmæli.

Þá er annar fundur haldinn á á Akureyri í dag vegna efnhagsástandsins. Á Akureyri er gengið frá Samkomuhúsinu inn á Ráðhústorg þar sem meðal annars Valgerður Bjarnadóttir og Hlynur Hallsson munu taka til máls.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka