Samningar voru eina leiðin

Valgerður Sverrisdóttir varaformaður Framsóknarflokksins.
Valgerður Sverrisdóttir varaformaður Framsóknarflokksins. mbl.is/Ómar

„Ég tel að stjórnvöld hafi verið í mjög þröngri stöðu og það varð að leysa þetta ágreiningsmál við Evrópusambandið. Eins og þetta birtist mér vorum við algjörlega upp við vegg og gátum ekkert annað gert vegna þess hve staða Íslands er erfið,“ sagði Valgerður Sverrisdóttir, alþingismaður og varaformaður Framsóknarflokksins, um þá niðurstöðu í IceSave-málinu sem ríkisstjórnin kynnti undir kvöld.

„Það er gott að við getum farið að horfa fram á við og að það fari ekki meiri tími í einhvers konar biðstöðu þegar tíminn er jafn dýrmætur og raun ber vitni. Það er sorglegt hvað þetta er búið að tefjast. Ég held því fram að íslensk stjórnvöld hafi staðið sig illa í þessari deilu. Það hafi verið löngu ljóst að staða okkar var þannig að það þurfti að semja,“ sagði Valgerður. Hún sagði enn mjög óljóst hve miklar eignir eru í Landsbankanum til þess að ganga upp í þetta. Ekki sé um annað að ræða en að fara þessa leið.

„Við fáum lán og einhvern skilning á því að það verði ekki gengið alveg inn að beini á íslensku þjóðinni,“ sagði Valgerður. „Þetta er óskaplega dapurlegt en ég geri mér grein fyrir því að samningaleiðin var eina leiðin. Ríkisstjórnin hefði betur áttað sig á því fyrr, frekar en að eyða þessum vikum í ekki neitt.“ 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert