Lánsumsókn Íslands hjá IMF afgreidd á miðvikudag

Stjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, (IMF) tekur að sögn Dominique Strauss-Kahn, forstjóra sjóðsins, fyrir lánsumsókn Íslands á miðvikudag. Strauss-Kahn greindi frá þessu á fréttamannafundi sem hann hélt í gærkvöld í framhaldi af G20 leiðtogafundinum um heimskreppuna í Washington. Afgreiðslu umsóknar íslands hefur ítrekað verið  frestað vegna deilna um Icesave-reikninga.

Strauss-Kahn sagði að málið yrði rætt á miðvikudag og ef umsóknin yrði samþykkt yrði haldið áfram á þeirri braut sem mörkuð hefði verið. Hann gaf ekkert upp um það hvort 2,1 milljarðs Bandaríkjadala lán til Íslands yrði samþykkt.

Engar upplýsingar hafa verið gefnar um skilyrði lánveitngar IMF að öðru leyti en því að stýrivextir hafa verið hækkaðir. Trúnaður hvílir á öðrum skilmálum að sögn Geirs H. Haarde, forsætisráðherra.

Upphaflega átti að taka umsókn Íslendinga um lán fyrir í byrjun mánaðarins. Málinu var frestað vegna deilna um Icesave-reikninga Landsbankans í  Bretlandi og Hollandi. Fyrir helgi sagði forsætisráðherra að lausn væri í sjónmáli og það var orðað sem svo að 99 skref af 100 hefðu verið tekin í átt til lausnar deilunni.

Þeir rúmu tveir milljarðar Bandaríkjadala sem útlit er fyrir að IMF láni Íslendingum, eru aðeins einn þriðji þeirrar aðstoðar sem íslensk stjórnvöld telja nauðsynleg til að kosta aðgerðir vegna kreppunnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka