„Ég sé engin efri mörk á skuldbindingu Íslendinga í þessu samkomulagi. Ég sakna efri marka sem íslensk þjóð gæti ráðið við,“ sagði Pétur H. Blöndal, alþingismaður og formaður efnahags- og skattanefndar Alþingis, um þau viðmið sem lögð verða til grundvallar viðræðum um lausn svonefndrar IceSave-deilu.
„Það getur ekki verið hlutverk Íslendinga einna að greiða fyrir galla í innlánstryggingakerfi Evrópusambandsins. Það getur heldur ekki verið ríkisábyrgð á þessum skuldbindingum, því það væri andstætt stjórnarskrá Íslands. Það má ekki skuldbinda ríkissjóð nema með lögum - fjárlögum. Þetta samkomulag þarf að sjálfsögðu samþykkis Alþingis við og þar geri ég ráð fyrir að menn vilji sjá einhver efri mörk á skuldbindingunni.“