Sama fyrirkomulag á úthafskarfaveiðum

Kraumandi síld við stefni Sighvats Bjarnasonar VE.
Kraumandi síld við stefni Sighvats Bjarnasonar VE.

Ísland fær að veiða 238 þúsund tonn úr norsk-íslenska síldarstofninum á næsta ári. Á þessu ári var kvóti Íslands 189.930 tonn. Þetta er því um 25% aukning á milli ára.

Stofninn stendur mjög vel um þessar mundir og ákvað Norðaustur-Atlantshafs-fiskveiðinefndin, NEAFC, að heildaraflamark fyrir árið 2009 verði 1.643.000 tonn, samkvæmt frétt frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu.

27. ársfundi NEAFC lauk á föstudaginn var, 14. nóvember, í London . Þar var m.a. fjallað um stjórn veiða á kolmunna, úthafskarfa, norsk-íslenskri síld, og makríl fyrir árið 2009 auk verndunar viðkvæmra hafsvæða.

Verulega verður dregið úr sókn í kolmunna á næsta ári. Heimilað verður að veiða alls 590 þúsund tonn, þar sem hlutur Íslands er tæp 96 þúsund tonn. Þetta er því þriðja árið í röð sem dregið er verulega úr kolmunnaveiðum.

Ekki náðist niðurstaða á fundinum um veiðar á úthafskarfa á Reykjaneshrygg og var frekari viðræðum frestað fram í febrúar og eru veiðar óheimilar til 1. apríl. Samkomulag náðist um að leyfa veiðar á 10.500 tonnum af úthafskarfa í síldarsmugunni á tímabilinu 15. ágúst til 15. nóvember 2009 og meðafli á karfa fari ekki yfir 1% við aðrar veiðar. Líkt og verið hefur undanfarin 2 ár verður veiðiheimildum ekki skipt á milli aðila og verða veiðarnar stöðvaðar þegar heildaraflamarkinu verður náð.

Samþykkt var tillaga um stjórn makrílveiða, sem Ísland mótmælti. Byggjast mótmæli Íslands, líkt og áður, á því að í samkomulaginu er ekki tekið tillit til stöðu Íslands sem strandríkis sem Íslendingar telja óviðunandi, m.a. í ljósi þess að yfir 110 þúsund tonn af makríl hafa veiðst innan íslenskrar lögsögu það sem af er þessu ári. Því er ljóst samkvæmt hafréttasamningi Sameinuðu þjóðanna að Ísland sé strandríki. Ísland áréttaði þó að þróun mála væri á réttri leið þar sem Íslandi var í ár í fyrsta sinn boðið að taka þátt í fundum hinna strandríkjanna.

Samkomulag varð um áframhaldandi lokanir á svæðum þar sem talið er að finnist viðkvæm vistkerfi, svo sem kórallar. Á aukaaðalfundi NEAFC, sem fram fór í júlí sl., náðist samkomulag um stjórnunarráðstafanir um botnfiskveiðar. Stjórnunarráðstöfunum er ætlað að styðja við frekari verndun viðkvæmra vistkerfa á úthafinu á samningssvæði NEAFC og munu þær taka þær gildi 1. janúar 2009.

Á aukaaðalfundi NEAFC, sem fram fór í júlí sl., náðist samkomulag um stjórnunarráðstafanir um botnfiskveiðar. Stjórnunarráðstöfunum er ætlað að styðja við frekari verndun viðkvæmra vistkerfa á úthafinu á samningssvæði NEAFC og munu þær taka þær gildi 1. janúar 2009.

Þá taka aðildarríkin á sig þá skyldu að skip þeirra hætti veiðum tafarlaust komi í ljós að mikið magn af t.d. kóral komi í botnveiðarfæri á svæðum sem hafa verið kortlögð. Samþykktir voru ákveðnir þröskuldar (t.d. magn af kóral og svömpum) sem viðmið um hvenær beri að stöðva veiðar.

Góður árangur í baráttunni gegn ólöglegum veiðum sem orðið hefur á undanförnum árum var jafnframt til umræðu á fundinum. Annað árið í röð voru engin sjóræningjaskip að karfaveiðum á Reykjaneshrygg. Ljóst þykir að aðgerðir NEAFC undanfarin ár séu lykillinn að þessum árangri.

Formaður íslensku sendinefndarinnar var Steinar Ingi Matthíasson skrifstofustjóri í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu. Auk fulltrúa sjávararútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins voru í sendinefnd Íslands á fundinum fulltrúar Hafrannsóknastofnunarinnar, Fiskistofu, og Landssambands íslenskra útvegsmanna. Stefán Ásmundsson skrifstofustjóri í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu er forseti NEAFC og var fundarstjóri.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert