„Það er útilokað að Fréttablaðið geti haft réttan heimildamann fyrir fréttum þess efnis að ég ætli að sækjast eftir formannsembætti á næsta flokksþingi. Það hefur ekki verið annað á dagskrá hjá mér en að styðja þau Guðna Ágústsson, Valgerði Sverrisdóttur og Sæunni Stefánsdóttur,“ segir Siv Friðleifsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.
mbl.is vísaði í morgun í frétt Fréttablaðsins þess efnis að Siv Friðleifsdóttir, alþingismaður og Páll Magnússon, fyrrverandi varaþingmaður, hyggðust sækjast eftir formannsembætti í Framsóknarflokknum á flokksþinginu í janúar. Siv segir þetta ekki rétt hvað sig varðar, hún hafi ekki rætt þetta við nokkurn mann svo það sé úr lausu lofti gripið.
„Guðni Ágústsson tók við Framsóknarflokknum við einhverjar erfiðustu aðstæður sem uppi hafa verið í flokknum og ég geri ekki ráð fyrir neinu öðru en að styðja hann og forystuna á flokksþinginu eftir áramót,“ segir Siv.