Áætlað heildarlán 5 milljarðar

mbl.is/G. Rúnar

Nú er gert ráð fyrir, að Íslendingar fái 3 milljarða Bandaríkjadali að láni auk  2 milljarða Bandaríkjadala, sem Ísland fær að láni hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum (IMF). Þetta kemur fram í þingsályktunartillögu sem ríkisstjórnin hefur lagt fram á Alþingi. Til þessa hefur verið talað um að 4 milljarða dala lán þurfi að koma til viðbótar láni IMF.  

Fram kom á blaðamannafundi forsætisráðherra og utanríkisráðherra síðdegis, þar sem yfirlýsingin var kynnt, að íslensk stjórnvöld hefðu fengið heimild um helgina hjá IMF að aflétta trúnaði af skjalinu.

Með tillögunni er birt sem fylgiskjal yfirlýsing Árna M. Mathiesen, fjármálaráðherra, og Davíðs Oddssonar, seðlabankastjóra, sem send var til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins 3. nóvember. Fram kemur að breyting hafi verið gerð á einum lið yfirlýsingarinnar þann 15. nóvember. Þar segir, að íslensk stjórnvöld hafi einsett sér að koma á traustu og  gagnsæju ferli í samskiptum við innlánshafa og lánveitendur hinna yfirteknu banka.

„Unnið er skipulega að sambærilegu samkomulagi við alla þá erlendu aðila sem hagsmuna eiga að gæta gagnvart Tryggingasjóði innstæðueigenda og fjárfesta hér á landi í samræmi við lagaramma EES. Ísland hefur heitið því að virða skuldbindingar á grundvelli innstæðutryggingakerfisins gagnvart öllum tryggðum innlánshöfum. Þetta byggist á þeim skilningi að unnt verði að forfjármagna þessar kröfur fyrir tilstyrk viðkomandi erlendra ríkja og að jafnt Ísland sem þessi ríki séu staðráðin í að efna til viðræðna á næstu dögum með það að markmiði að ná samkomulagi um nánari skilmála vegna þessarar forfjármögnunar. Enn fremur viðurkennum við að það sé lykilatriði í réttlátri meðferð gagnvart innstæðueigendum og kröfuhöfum á hendur yfirteknu bönkunum að nýju bankarnir greiði sannvirði fyrir þær eignir sem fluttar voru frá gömlu bönkunum. Við höfum komið upp gagnsæju ferli þar sem tvö teymi sjálfstæðra endurskoðenda sjá um að meta sannvirði eigna. Almennt munum við tryggja að meðferð á innstæðueigendum og lánardrottnum sé sanngjörn, jöfn og án mismununar og í samræmi við gildandi lög," segir í yfirlýsingunni.

Samkvæmt þingsályktunartillögunni er ríkisstjórninni falið að leiða til lykta áform um fjárhagslega fyrirgreiðslu hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum á grundvelli fyrirliggjandi viljayfirlýsingar íslenskra stjórnvalda.

Í greinargerð með tillögunni segir, að í kjölfar bankahrunsins í byrjun október hafi ríkisstjórnin ákveðið að leita til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um fjárhagslega fyrirgreiðslu. Viðræður fulltrúa Íslands og sjóðsins um fyrirkomulag samstarfsins hafi staðið yfir um nokkurt skeið og unnin hafi verið ítarleg efnahagsáætlun með það að markmiði að koma á efnahagslegum stöðugleika að nýju.

Meginmarkmið efnahagsáætlunar ríkisstjórnarinnar eru í fyrsta lagi að endurvekja traust á íslenskum efnahag og ná stöðugu gengi krónunnar með markvissum og öflugum aðgerðum, í öðru lagi að styrkja stöðu ríkissjóðs og í þriðja lagi að endurreisa íslenskt bankakerfi.

Gert er ráð fyrir að stjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins taki ákvörðun á  miðvikudaginn um fjárhagslega fyrirgreiðslu til íslenskra stjórnvalda á grundvelli fyrirliggjandi áætlunar. Samstarf Íslands og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins felur í sér lánveitingu frá sjóðnum að andvirði rúmlega 2 milljarða Bandaríkjadala sem greidd verður út í áföngum. Jafnframt er gert ráð fyrir láni annars staðar frá að fjárhæð 3 milljarðar Bandaríkjadala.

Þingsályktunartillagan í heild 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert