Vinsælasta greinin á vef Financial Times fjallar ekki um netsíma Baracks Obama, japanska kreppu eða horfurnar á evrusvæðinu. Flestir vilja lesa aðsent bréf frá Íslandi, þar sem ástandinu er lýst með augum aðflutts manns.
Bréfritarinn, Robert Jackson, breskur blaðamaður sem hefur verið búsettur á Íslandi síðan 2003, segir íbúafjölda landsins svipaðan og í borginni Coventry, og að í ljósi mikilla náttúruauðlinda sé Ísland hreint ekki slæmur staður til að búa á. Nóg sé til af jarðhita og þorski og landið reglulega ofarlega á blaði á lífsgæðalistum.
Síðan hafi opnast fyrir nær ótakmarkaðan aðgang að lánsfé.
Vöxturinn hafi verið ævintýralegur þangað til lánsfjárbólan hafi sprungið yfir höfuðstaðinn eins og loftskip sem fellur til jarðar með tilþrifum.
Það sem hafi síðan gerst sé ekkert gamanmál.
Kona bréfritara, Edda, hafi brostið í grát eftir ræðu Geirs H. Haarde forsætisráðherra sem lauk á þeim frægu orðum „Guð blessi Ísland“.
Síðar hafi komið í ljós að handboltalið dóttur þeirra átti ekki gjaldeyri til að leysa treyjurnar úr tollinum. Ekki hafi verið hægt að endurnýja Skype-áskrift með íslenskum greiðslukortum.
Illa sé komið fyrir þjóð sem hafi í gegnum tíðina sýnt ráðdeildarsemi.