Ánægður með samning Íslands og ESB

Percy Westerlund.
Percy Westerlund. mbl.is/Kristinn

Percy Westerlund, sendiherra Evrópusambandsins gagnvart Íslandi, segist ánægður með það samkomulag, sem náðst hefur milli Íslands og viðkomandi ESB-ríkja fyrir milligöngu Frakklands, um viðmið fyrir lausn Icesave-deilunnar.

„Þetta lofar góðu. Ísland axlar sína ábyrgð og hefur náð góðu samstarfi við bandamenn sína. Það er eftir að fínpússa smáatriðin og það er oft mikil vinna, en ég er sannfærður um að málið mun leysast," segir Westerlund í samtali við Morgunblaðið.

Aðspurður hvað ESB muni gera til að tryggja að skuldabyrði vegna Icesave muni ekki sliga íslenskan efnahag, segist Westerlund ekki geta tjáð sig um það í einstökum atriðum. „Þetta er eins og í sérhverju sambandi lánardrottins og skuldunauts. Lánardrottnar vilja fá endurgreitt og setja þess vegna sanngjarna skilmála. Það er allra hagur að íslenskt efnahagslíf nái sér sem fyrst á strik. Hvar línan liggur nákvæmlega í þessu get ég ekki svarað, það er frekar í verkahring einstakra aðildarríkja," segir hann.

Westerlund segir að samkomulagið skapi betra andrúmsloft í samskiptum Íslands og ESB. „Það mun bæði flýta fyrir efnahagslegum bata á Íslandi og greiða fyrir ef Ísland ákveður að sækja um aðild að sambandinu," segir hann. 

Amelia Torres, talsmaður framkvæmdastjórnar ESB sagði á blaðamannafundi í Brussel í dag, að þar á bæ væri því fagnað, að Íslendingar ætluðu að beita reglum ESB  um tryggingu bankainnistæðna.

„Þetta ætti að greiða fyrir samkomulagi um fjárhagsaðstoð, sem landið hefur óskað eftir," sagði  Torres.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka