„Ég hef ekki séð neinar skýrslur, minnisblöð eða vinnuskjöl þar sem tímasetningar í sambandi við aðildarumsókn að ESB eru nefndar. Frétt EUobserver þess efnis er einfaldlega röng. Það liggja ekki fyrir nein drög að umsókn í ESB hér í ráðuneytinu,“ segir Urður Gunnarsdóttir, fjölmiðlafulltrúi utanríkisráðuneytisins.
Á fréttavefnum EUobserver sagði í morgun að utanríkisráðuneytið hefði þegar lagt drög að umsókn um aðild að Evrópusambandinu í byrjun næsta árs. Vefurinn vísaði í umfjöllun Financial Times og sagði að markmiðið væri að Ísland gengi inn í ESB árið 2011. Á vef EUobserver var ennfremur sagt frá skipan Evrópunefndar Sjálfstæðisflokksins fyrir helgi og flýtingu landsfundar flokksins. Þá segir að Íslendingar hafi ætíð verið andvígir ESB-aðild en í kjölfar bankahrunsins hafi viðhorf þjóðarinnar breyst. Nú styðji um 70% landsmanna aðildarumsókn í stað 50% áður.
Urður Gunarsdóttir segir auðséð að erlendi blaðamaðurinn hafi mislesið skipan Evrópunefndar Sjálfstæðisflokksins og dregið rangar ályktanir út frá henni.
„Það er til minnisblað frá í október þar sem farið er almennt yfir umsóknarferlið, hvernig það gengur fyrir sig. Þar var tekið mið af öðrum löndum sem gengið hafa í ESB eða eru í umsóknarferlinu. Í minnisblaðinu er að finna lögfræðiskýringar, eins og hver réttarstaða umsóknarríkis er og hvaða málaflokka þyrfti að semja um. Í þessu minnisblaði er ekki neitt að finna sem ekki hefur komið fram opinberlega áður og þar eru engar tímasetninngar nefndar,“ segir Urður Gunnarsdóttir.