Drög alls ekki lögð að umsókn um ESB-aðild

mbl.is/Kristinn

„Ég hef ekki séð neinar skýrslur, minnisblöð eða vinnuskjöl þar sem tímasetningar í sambandi við aðildarumsókn að ESB eru nefndar. Frétt EUobserver þess efnis er einfaldlega röng. Það liggja ekki fyrir nein drög að umsókn í ESB hér í ráðuneytinu,“ segir Urður Gunnarsdóttir, fjölmiðlafulltrúi utanríkisráðuneytisins.

Á fréttavefnum EUobserver sagði í morgun að utanríkisráðuneytið hefði þegar lagt drög að umsókn um aðild að Evrópusambandinu í byrjun næsta árs. Vefurinn vísaði í umfjöllun Financial Times og sagði að markmiðið væri að Ísland gengi inn í ESB árið 2011. Á vef EUobserver var ennfremur sagt frá skipan Evrópunefndar Sjálfstæðisflokksins fyrir helgi og flýtingu landsfundar flokksins. Þá segir að Íslendingar hafi ætíð verið andvígir ESB-aðild en í kjölfar bankahrunsins hafi viðhorf þjóðarinnar breyst. Nú styðji um 70% landsmanna aðildarumsókn í stað 50% áður.

Urður Gunarsdóttir segir auðséð að erlendi blaðamaðurinn hafi mislesið  skipan Evrópunefndar Sjálfstæðisflokksins og dregið rangar ályktanir út frá henni.

„Það er til minnisblað frá í október þar sem farið er almennt yfir umsóknarferlið, hvernig það gengur fyrir sig. Þar var tekið mið af öðrum löndum sem gengið hafa í ESB eða eru í umsóknarferlinu. Í minnisblaðinu er að finna lögfræðiskýringar, eins og hver réttarstaða umsóknarríkis er og hvaða málaflokka þyrfti að semja um. Í þessu minnisblaði er ekki neitt að finna sem ekki hefur komið fram opinberlega áður og þar eru engar tímasetninngar nefndar,“ segir Urður Gunnarsdóttir. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert