DV birtir yfirlýsingu stjórnvalda til IMF

DV birtir í dag fyrstu og síðustu blaðsíðu yfirlýsingar, sem íslensk stjórnvöld sendu Alþjóðagjaldeyrissjóðnum 3. nóvember þegar formlega var óskað eftir aðstoð sjóðsins. Segist blaðið ætla að birta alla yfirlýsinguna á heimasíðu sinni síðdegis.

Í umfjöllun DV um yfirlýsinguna kemur fram, að  heitið er ströngu aðhaldi í ríkisfjármálum og því lýst yfir að hugsanlegt sé að stýrivextir verði hækkaðir meira en gert hefur verið og beita öðrum aðgerðum í gjaldeyrismálum til að koma í veg fyrir sveiflur í gengi krónunnar.

Í viljayfirlýsingunni sé útskýrður tilgangur neyðarlaganna. „Sú stefna að grípa beint inn í starfsemi bankanna helgast af þeirri þörf að tryggja áframhaldandi innlenda bankastarfsemi og kom bankageiranum niður í þá stærð sem getur samræmst umfangi hagkerfisins," að því er segir í DV.

Fram kemur að íslensk stjórnvöld og Seðlabankinn einsetji sér að koma á traustri og gagnsærri úrvinnslu gagnvart innlánshöfum og lánveitendum hinna yfirteknu banka. Við endurskipulagningu verði metið hvort stjórnendur og helstu hluthafar bankanna hafi gerst sekir um afglöp eða misnotkun á bönkunum. „Við munum ráða reyndan bankaeftirlitsmann til að fara yfir regluverkið og starfshætti við bankaeftirlit og leggja til nauðsynlegar breytingar. Þessi ráðgjafi mun einkum beina sjónum að reglum um lausafjárstýringu, lán til tengdra aðila, stórar einstakar áhættur, krosseignatengsl og hagsmunalegt sjálfstæði eigenda og stjórnenda. Fyrrverandi yfirstjórnendur og helstu hluthafar í  yfirteknu bönkunum, sem gerst hafa sekir um afglöp í rekstri eða misnotkun á bönkunum, eiga ekki að gegna sambærilegum störfum næstu þrjú árin," að því er segir í yfirlýsingunni.

Segir í frétt DV að hvergi sé minnst á breytingar á ábyrgð stjórnar Seðlabankans eða ríkisstjórnarinnar á hruni bankakerfisins.

Yfirlýsingin er undirrituð af Davíð Oddssyni, seðlabankastjóra, og Árna M. Mathiesen, fjármálaráðherra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert