Formenn stjórnarandstöðuflokkanna fengu í síðustu viku afrit af yfirlýsingu íslenskra stjórnvalda til Alþjóða gjaldeyrissjóðsins, en DV birti í morgun skjalið í heild á vefsíðu sinni. „Ég hef haft þetta í höndunum sem trúnaðarmál [...] En úr því þetta er orðið opinbert í DV get ég tjáð mig um það sem þar birtist,“ segir Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs.
Í bréfi íslenskra stjórnvalda kemur m.a. fram að stjórnvöld séu reiðubúin að hækka stýrivexti hér á landi enn frekar, en vextirnar hafa nú verið hækkaðir í 18%.
„Ég hef kvartað undan því og gagnrýnt mjög harðlega að Alþingi hafi verið sett til hliðar í þessu máli. Ekki einu sinni utanríkismálanefnd hefur fengið að sjá þetta, þótt í trúnaði væri,“ segir hann. Hið sama gildi um önnur gögn vegna fjármálakreppunnar. „Utanríkismálanefnd hefur ekki séð eitt einasta blaðsnifsi. Hún hefur ekki séð skilmálann til IMF, ekki gögn vegna Icesave-deilunnar, ekki bréf sem gengið hafa milli íslenskra og breskra stjórnvalda, ekki séð minnispunkta frá fundum t.d. Björgvins Sigurðssonar með Alistair Darling í september. Ég hef aldrei á mínum ferli séð Alþingi sett jafn harkalega til hliðar og eru þó engin smá mál að ráðast til lykta.“
Formenn stjórnarandstöðuflokkanna fengu yfirlýsingu stjórnvalda senda í síðustu viku. Steingrímur segir að mjög skýrar óskir um að halda trúnaði „og það hef ég gert. Ég hef ekki einu sinni sagt mínum eigin þingmönnum frá því vegna þess að ég held trúnað þótt aðrir geri það ekki“, segir Steingrímur.
Guðjón Arnar Kristjánsson, formaður Frjálslynda flokksins, segist mjög óhress með að þetta mál hafi ekki verið lagt fyrir þingið. „Þingið á að fá að ræða þessi mál og koma að þeim. Ég er ekki sammála því að stjórnvöld geti sett svona fram þannig að það sé bindandi og þingið verði stimpilstofnun fyrir allt mögulegt sem stjórnvöld senda frá sér.“
Hann vill ekki ræða nánar um efni bréfsins og kveðst eiga von á að forsætisráðherra ræði síðar í dag við formenn stjórnarandstöðunnar, þótt slíkur fundur hafi enn ekki verið boðaður.
Nærtækara að tala um uppgjöf, ósigur eða tap
Steingrímur J. Sigfússon segir ljóst að fyrir helgi hafi verið sett á leikrit. Íslensk stjórnvöld hafi þá þegar verið búin að fallast á að gefast upp í Icesave málinu. „En því er haldið leyndu, væntanlega af hræðslu við mótmælin á laugardaginn var. Þess í stað var kynntur nánast innhaldslaus heimilispakki á föstudaginn til þess að reyna að róa ástandið. Fjölmiðlar, sérstaklega Morgunblaðið og Fréttablaðið ganga í þjónustu við ríkisstjórnina í þessu máli, með ævintýralegum fréttaflutningi um lausn í málinu og samkomulag og annað þvíumlíkt. Og það jafnvel á degi íslenskrar tungu þegar nærtæktara orðalag væri uppgjöf, ósigur eða tap.“