Guðni Ágústsson hefur sagt af sér þingmennsku og var bréf þessa efnis lesið upp í upphafi þingfundar á Alþingi í dag. Í bréfinu segist Guðni láta í ljósi einlæga von um að þjóðinni takist að sigrast á þeim erfiðleikum, sem nú steðja að.
Guðni hefur jafnframt sagt af sér sem formaður Framsóknarflokksins og hefur sent bréf til þingmanna Framsóknarflokksins þar sem hann segist hafa verið reiðubúinn til að leiða það starf með öflugum og samhentum hópi fólks, sem setti flokk sinn og pólitísk gildi hans í öndvegi.
„Því miður hefur vonin um nauðsynlegan starfsfrið og einingu breyst í andhverfu sína. Mér er það ljóst að sú sátt innan Framsóknarflokksins sem nauðsynleg er fyrir endurreisn hans mun ekki skapast án breytinga í forystu flokksins. Sú sátt þolir enga bið," segir Guðni í bréfinu til flokksmanna.
Hann segist í tölvupósti til fjölmiðla ekki ætla að tjá sig frekar um þetta mál eða önnur á næstu vikum. „Með því tel ég mig vinna Framsóknarflokknum og því endurreisnarstarfi sem hans bíður mest gagn."
Guðni hefur átt fast sæti á Alþingi frá árinu 1987, fyrst fyrir Suðurlandskjördæmi en síðan fyrir Suðurkjördæmi, en var áður varaþingmaður. Hann hefur verið formaður Framsóknarflokksins frá því á síðasta ári. Þá var hann landbúnaðarráðherra á árunum 1999 til 2007.
Valgerður Sverrisdóttir, alþingismaður, er varaformaður Framsóknarflokksins og tekur við formennsku. Þá er Eygló Harðardóttir, framkvæmdastjóri, í Vestmannaeyjum, fyrsti varaþingmaður Framsóknarflokksins í Suðurkjördæmi.
Það kom fram í máli þingmanna, sem tóku til máls í kjölfar tilkynningar þingforseta, að þessi yfirlýsing hefði komið þeim í opna skjöldu.