Atvinnuhorfur eru verstar á Suðurnesjum. Guðbrandur Einarsson formaður Verslunarmannafélags Suðurnesja segir hraða uppbyggingu hafa átt sér stað í góðærinu en nú blasi hinn kaldi veruleiki við. Hrina uppsagna hafi dunið á Suðurnesjamönnum um síðustu mánaðarmót og búist sé við öðru eins um þau næstu.
Mikið hefur verið byggt á Suðurnesjum enda bjartsýni mikil. Guðbrandur á von á því að það setji svip sinn á umhverfið um ókomin ár með hálfkláruðum húsum og ófrágengnum götum. Einhver hverfi gætu jafnvel orðið draugahverfi.
Hann segir að vonir séu enn sem fyrr bundar við álver. Bærinn þurfi þó að framkvæma fyrir um einn milljarð króna áður en slíkt verði að veruleika. Hafnarsjóður bæjarins er fyrir mjög skuldsettur ekki síst vegna framkvæmda í Helguvík. Vaxtagjöld af skuldum sjóðins eru um þrjúhundruð milljónir árlega og þótt álver yrði að veruleika myndu tekjur bæjarins af verksmiðjunni ekki standa undir því, að mati Guðbrands.