Krefur RÚV um skaðabætur

Skjárinn, en undir hann heyra SkjárEinn, SkjárBíó og SkjárHeimur, ætlar að krefja Ríkisútvarpið (RÚV) um umtalsverðar skaðabætur vegna aðgerða þess á auglýsingamarkaði sem taldar eru vera ólögmætar.  Einnig krefst Skjárinn þess að RÚV láti af meintri ólögmætri háttsemi sinni.

Í frétt frá Skjánum segir að LOGOS lögmannsþjónusta hafi sent Ríkisútvarpinu (RÚV) bréf „þar sem fram kemur að Skjárinn muni innan skamms leggja fram kröfu um umtalsverðar skaðabætur vegna ólögmætra aðgerða RÚV á auglýsingamarkaði. Er þess krafist að RÚV láti án tafar af ólögmætri háttsemi sinni og lýsir Skjárinn ennfremur fullri ábyrgð á hendur RÚV vegna fjárhagslegs tjóns af völdum ólögmætra aðgerða stofnunarinnar. Mun Skjárinn krefja RÚV um fullar skaðabætur vegna alls þess tjóns sem aðgerðir RÚV hafa valdið og kunna að valda.

Í bréfinu er vísað í að RÚV hafi boðið til sölu auglýsingar á verði sem er langt undir gjaldskrá stofnunarinnar en RÚV hafi enga heimild til að víkja frá umræddri gjaldskrá. Þá segir að augljóst að tilboðin séu sett fram með þeim skýra ásetningi að útiloka keppinauta frá markaði, þ.m.t. SkjáEinn. Sé slík háttsemi skýrt brot á samkeppnislögum og lögum um RÚV og hafi þegar valdið Skjánum gríðarlegu tjóni.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert