Leggur fram frumvarp í 9. sinn

Reykur eftir kjarnorkusprengingu stígur upp frá Hiroshima í Japan 6. …
Reykur eftir kjarnorkusprengingu stígur upp frá Hiroshima í Japan 6. ágúst 1945. AP

Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG, hefur lagt fram frumvarp á Alþingi um að Ísland verði gert að friðlýstu svæði þar sem bannað er að koma fyrir, staðsetja eða geyma, flytja um eða meðhöndla á nokkurn annan hátt kjarnorkuvopn. Er þetta í 9. skipti sem frumvarpið er lagt fram en það hefur aldrei fengið afgreiðslu.

Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram  að í  gegnum tíðina hafi frumvarpið notið stuðnings þingmanna allra hinna rótgrónu flokka nema Sjálfstæðisflokksins. Að þessu sinni eru flutningsmenn með Steingrími þau Ásta R. Jóhannesdóttir, Ellert B. Schram, Guðjón A. Kristjánsson, Guðni Ágústsson, Kristinn H. Gunnarsson og  Katrín Jakobsdóttir.

Steingrímur lagði fyrst fram frumvarp þessa efnis árið 1987 og hefur síðan lagt fram svipuð frumvörp átta sinnum til viðbótar.

Á áttunda áratug síðustu aldar lögðu þingmenn Alþýðubandalagsins fjórum sinnum fram þingsályktunartillögu um bann við geymslu og notkun kjarnorkuvopna á íslensku yfirráðasvæði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert