Björgunarsveitir á sunnanverðum Vestfjörðum voru kallaðar út laust fyrir kl. 19 í gær til að leita að týndri rjúpnaskyttu. Maðurinn fór frá Kili að Mikladal við Patreksfjörð um hádegisbilið í gær og var búinn að vera á gangi í tæpa níu tíma er hann hringdi í vin sinn og sagðist vera villtur.
Vinur mannsins hafði strax samband við lögreglu sem kallaði út björgunarsveitir. Leitað var að manninum í kringum Hálfdán og norður af Kleifaheiði, samkvæmt frétt Bæjarins besta.
Rjúpnaskyttan var með talstöð og í stöðugu sambandi við leitarflokka. Hann fannst rétt fyrir ofan golfskálann á Patreksfirði. Var hann kaldur og hrakinn en með meðvitund og óslasaður. Talið er að hann hafi gengið um 20 km en leitin stóð yfir í rúma tvo tíma.