Farþegaflugvél á leið frá Moskvu til Toronto í Kanada lenti á Keflavíkurflugvelli í kvöld vegna alvarlegra veikinda farþega, erlends karlmanns á fertugsaldri. Lífgunartilraunir báru ekki árangur og var maðurinn úrskurðaður látinn.
Að sögn lögreglunnar á Suðurnesjum tilkynnti flugstjórinn um alvarlega veikan farþega um borð og óskaði eftir lendingarleyfi hér. Flugvélin lenti svo á Keflavíkurflugvelli um kl. 18.15. Hinn látni varð eftir hér á landi en fjölskylda hans, eiginkona og ung börn, héldu ferð sinni áfram.
Flugvélin hélt för sinni áfram um kl. 20.00 eftir að fyllt hafði verið á eldsneytistanka hennar.