„Þetta var stórkostlegur fundur og mikil samheldni í fólkinu,“ sagði Gunnar Sigurðsson leikstjóri við Fréttavef Morgunblaðsins, en hann var fundarstjóri og einn boðenda opins borgarafundar á veitingastaðnum Nasa í kvöld. Troðfullt var út úr dyrum og stemmningin góð.
„Ég held að fjölmiðlamenn geti lært mikið af fundinum ef þeir líta í eigin barm," sagði Gunnar, en fulltrúar fjölmiðla sátu í pallborði að loknum ávörpum frummælenda. Umföllun miðlanna í aðdraganda bankahrunsins var í brennidepli.
Þetta var þriðji fundurinn sem Gunnar og fleira fólk boða til í því skyni að ræða um ástandið í þjóðfélaginu. Tveir þeir fyrstu voru í Iðnó en sá í kvöld var lang fjölmennastur.
„Það var mjög gaman að heyra í fólkinu. Við erum ákveðin í því að næsti fundur, eftir viku, verði í Háskólabíói og þá krefjumst við þess að ríkisstjórn Íslands mæti. Fólkið vill tala við hana milliliðalaust. Þá verða stólar á sviðinu með nöfnum ráðherranna; við skulum sjá hve margir verða tómir. Við krefjumst þess líka að allir alþingismenn Íslands mæti eða sendi fulltrúa sinn,“ sagði Gunnar í kvöld.
„Mér finnst líka sjálfsagt að Ríkisútvarpið sendi beint út frá fundinum og mun krefjast þess. Fyrst RÚV gat verið með beina útsendingu frá blaðamannafundi Sjálfstæðisflokksins ættu þeir að geta það.“
Líklegt er talið að 800 manns hafi verið á Nasa í kvöld og stemmning var góð. Mikið var klappað og góður rómur gerður að ræðum. Margar hnyttnar setningar hrutu af vörum ræðumanna og fengu góðan hljómgrunn.
Fummælendur voru Irma Erlingsdóttir, bókmenntafræðingur, Eggert Briem, stærðfræðingur, Björg Eva Erlendsdóttir, blaðamaður og Davíð A. Stefánsson, bókmenntafræðingur.
Einn ræðumanna líkti ástandinu í þjóðfélaginu við rútu sem ekið hefði verið á ofsahraða út í skurð. Síðan þegar sjúkrabíllinn kom var enginn annar en hinn glannafengndi rútubílstjóri undir stýri.
Þegar frummælendur höfðu lokið máli sínu var orðið gefið laust og hver sem vildi fékk tvær mínútur til að tjá sig úr sal eða spyrja þátttakendur í pallborði spurninga.
Síðan fóru fram pallborðsumræður þar sem fulltrúar fjölmiðla og Blaðamannafélags Íslands áttu sæti; Ólafur Stephensen ritstjóri Morgunblaðsins, Jón Kaldal ritstjóri Fréttablaðsins, Broddi Broddason fréttamaður hjá Ríkisútvarpinu, Sigmundur Ernir Rúnarsson fréttamaður hjá Stöð2 og Bylgjunni, Reynir Traustason ritstjóri DV, Egill Helgason sjónvarpsmaður og Arna Schram frá Blaðamannafélagi Íslands.
Öllum stjórnmálamönnum, seðlabankastjórum, bankastjórum, fréttastjórum og öðru fjölmiðlafólki var boðið að mæta til að svara spurningum Íslendinga milliliðalaust. Nokkrir alþingismenn mættu.