Jón Ásgeir Jóhannesson mun víkja úr öllum stjórnum hlutafélaga hér á landi fyrir vikulok, að því er segir í athugasemd frá honum. Hann vísar bollaleggingum um hugsanlegt lögbrot á bug og kveðst hafa virt tímaramma Hlutafélagaskrár.
Í athugasemdinni segir Jón Ásgeir að aldrei hafi annað staðið til hjá sér en að hætta í stjórnum hlutafélaga hér á landi. Hlutafélagaskrá hafi veitt álit sitt á þeim tímaramma sem hann hefði og hann hafi fylgt þeim tilmælum. „Samhliða hef ég verið að losa mig úr stjórnum eftir því sem aðstæður hafa leyft. Menn verða að gá að því að það er ekki sama hvernig þetta er gert, það er bara hægt að kjósa nýja stjórnarmenn á aðalfundum og það þarf að finna fólk í staðinn. Það hefur líka mætt mikið á þessum fyrirtækjum sem sum hver eru að berjast fyrir lífi sínu.
Eins og kom fram í síðustu viku þá er verið að ganga frá úrsögn minni úr stjórnum þeirra félaga sem eftir stóðu. Þetta verður frágengið mál í þessari viku, vel innan tímamarka Hlutafélagaskrár. Ég vísa því tali um lögbrot alfarið á bug og skil ekki hvað Páli gengur til, né í Morgunblaðinu að hleypa þessu á forsíðuna í annað sinn á einni viku," segir í athugasemd Jóns Ásgeirs.