Vaxandi styrkur mótmæla

mbl.is/Kristinn

Mikill mannfjöldi var á mótmælafundi við Alþingishúsið á laugardaginn og telur lögreglan að um sex þúsund manns hafi verið á staðnum. Skipuleggjendur mótmælanna segja töluna nær tíu þúsund. Var þetta sjötta laugardaginn í röð sem mótmælin eru haldin og er engan bilbug að finna á skipuleggjendum.

Hörður Torfason, skipuleggjandi mótmælanna, sagði ekki hægt að vera annað en ánægður með samkomuna á laugardag. ,,Tilgangur mótmælanna er að byrja að skila sér. Allir hafa gott af þessu og þetta veitir líka aðhald. Mótmælin geta veitt fólki aftur trú á tilveruna og þetta þjappar fólki saman.“

Hörður sagði að vissulega mæddi mikið á sér og fleiri aðstandendum. Einna mesti tíminn færi í að finna góða ræðumenn en mikilvægt væri að að hafa breiddina góða. Hann fengi líka hátt í 70 netpósta á dag og hringingar líka. Hins vegar yrði rödd listamannsins að vera til staðar þegar kallað væri eftir henni og hann hefði alltaf litið á það sem sitt starf að vera sú rödd.

,,Mótmælin hafa farið stigvaxandi og það er engan bilbug á okkur að finna, síður en svo. Við munum ekki hætta fyrr en seðlabankastjóri er farinn og búið að skipta um stjórn Fjármálaeftirlitsins. Mótmælin breytast í samræmi við ástandið. Allt er þetta keðjuverkun.“

Hörður Torfason
Hörður Torfason mbl.is/Eggert
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka