Geir H. Haarde, forsætisráðherra, og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra, sögðu á blaðamannafundi síðdegis að ljóst væri að yfirlýsing íslenskra stjórnvalda til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, sem DV birti í dag, hefði ekki lekið frá ríkisstjórninni.
„Við þekkjum plaggið" sagði Ingibjörg Sólrún og bætti við að þýðingin, sem DV birti, hefði ekki verið gerð fyrir ríkisstjórnina.
Fram kom á fundinum að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefði samþykkt að aflétta leynd af yfirlýsingunni um helgina. Þegar Geir var spurður hvers vegna yfirlýsingin hefði þá ekki verið birt í gær svaraði hann, að ríkisstjórnin hefði viljað að Alþingi fengi hana fyrst í hendur en yfirlýsingin var birt þar nú síðdegis sem fylgiskjal með þingsályktunartillögu.