Yfir 96 prósent bera mikið traust til slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna, samkvæmt viðhorfskönnun sem Capacent Gallup gerði fyrir Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna (LSS) og Brunamálastofnun í september. Þá segjast 97% svarenda telja að árlegt Eldvarnaátak LSS sé mikilvægt. Eldvarnaátakið hefst í næstu viku.
„Við erum ákaflega þakklátir fyrir þessa traustsyfirlýsingu frá þjóðinni. Það er mikilvægt fyrir okkar menn að fá þessi skilaboð. Þau styrkja okkur í daglegum störfum og forvarnastarfi,“ segir Sverrir Björn Björnsson, formaður LSS, um niðurstöður könnunarinnar.
Alls sögðust 96,3 prósent svarenda bera mjög mikið eða frekar mikið traust til slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna. Traustið mælist að meðaltali 4,5 á kvarðanum 1-5. Meðaltalið í sambærilegum mælingum Capacent Gallup er 3,5 en lægsta gildi 1,8. Þeir fáu sem ekki segjast bera mjög mikið eða frekar mikið traust til stéttarinnar svara yfirleitt “hvorki né” en neikvæðni er vart mælanleg.
Enn fleiri, eða 97 prósent, sögðust telja Eldvarnaátak LSS fyrir jól og áramót vera mjög mikilvægt (73,9%) eða frekar mikilvægt (23,2%). Eldvarnaátakið 2008 hefst í næstu viku en þá heimsækja slökkviliðsmenn um fimm þúsund grunnskólabörn um allt land, fræða þau um eldvarnir og gefa þeim kost á að taka þátt í Eldvarnagetrauninni ásamt fjölskyldum sínum. Fræðslu um eldvarnir heimilanna verður jafnframt beint til alls almennings.
Könnunin fór fram á netinu og var úrtakið 1200 manns á öllu landinu, á aldrinum 16-75 ára. Svarhlutfallvar 65,7%.