Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra, sagði eftir þingflokksfund Samfylkingarinnar í kvöld, að formenn stjórnarflokkanna hefðu setið sex fundi fyrr á þessu ári með bankastjórn Seðlabankans þar sem fjallað var um erfiða stöðu bankakerfisins.
Ingibjörg Sólrún sagði, að á fundi Samfylkingarinnar í dag hefði verið fjallað almennt um stöðuna í efnagsmálum og þau verkefni, sem menn standa frammi fyrir þegar lánið frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum kemur.
Þegar Ingibjörg Sólrún var spurð hvort rætt hafi verið um ræðu, sem Davíð Oddsson, seðlabankastjóri hélt fundi Viðskiptaráðs í morgun, svaraði hún að málið snérist ekki um einn mann, það væri miklu stærra en svo. Vandamál Davíðs væri, að hann kæmi úr stjórnmálunum og hefði verið virkur þátttakandi í flestu því sem gert hafi verið á þeim vettvangi undanfarin 17 ár og troðið illsakir við marga. Sagði Ingibjörg Sólrún, að ekki væri verið ásaka Davíð um misfellu í starfi, með því að krefjast þess að hann viki; vandamálið væri trúverðugleiki.
Fram kom hjá Ingibjörgu, að formenn stjórnarflokkanna hefðu á fyrri hluta ársins setið sex fundi með bankastjórn Seðlabankans þar sem erfið staða bankakerfisins var rædd. Sá vandi hefði verið tvíþættur: Annarsvegar að bankakerfið var orðið allt of stórt fyrir íslenskt efnahagskerfi og hinsvegar mikilvægi þess að byggja upp varnir fyrir bankakerfið. Þar hefði Seðlabankinn fengið það verkefni að afla gjaldeyrisskiptasamninga og lána til að styrkja gjaldeyrisforðann.
Geir H. Haarde, forsætisráðherra, sagði í fréttum Stöðvar 2 að til
greina kæmi að sameina eftirlitsstofnanir, Seðlabankann og
Fjármálaeftirlitið, á ný. Til þess þyrfti þó að breyta lögum.