Ábyrgðin liggur hjá bönkunum

Geir H. Haarde, forsætisráðherra, segir forsvarsmenn Seðlabankans oft hafa lýst áhyggjum af bönkunum á fundum með ráðherrum ríkisstjórnarinnar.

Davíð Oddsson nefndi í ræðu sinni á fundi Viðskiptaráðs í morgun i sérstaklega fund Seðlabankans með erlendum bankastjórum í febrúar þar sem ljóst varð að staða bankanna væri alvarleg. Héldu seðlabankamenn  fund með íslenskum ráðherrum í kjölfarið.

Geir minnist þessa fundar og annarra en ekki þess að bankinn hafi lagt til að farið yrði í sérstakar aðgerðir vegna þess sem ekki hafi verið orðið við. Í kjölfar slíkra funda hafi iðulega verið rætt við bankastjóra viðskiptabankanna en þeir hafi ekki gefið rétta mynd af stöðunni. 

Þetta kom fram eftir ríkisstjórnarfund í morgun.

Geir segir að meginábyrgðin hafi legið hjá bönkunum og þar séu ekki öll kurl komin til grafar. Hann segir að svo virðist sem gagnrýni seðlabankastjóra snúi enda fyrst og fremst að bönkunum.

Davíð nefndi sérstaklega að ekki hefði allt komið fram varðandi aðdraganda þess að sett voru hryðjuverkalög á íslenska banka. Ekki hefðu öll samtöl verið birt sem málið varða en honum væri kunnugt um hvað réði afstöðu breskra yfirvalda.

Geir var spurður hvort stjórnvöld væru að leyna einhverjum gögnum varðandi þetta. Hann sagðist ekki vita hvað Davíð Oddsson væri að fara með þessu. Beiting hryðjuverkalaganna væri enn óútskýrð.

Davíð Oddssson nefndi ennfremur að einn tiltekinn aðili, væntanlega Jón Ásgeir Jóhannesson, skuldaði þúsund milljarða í bönkunum þremur og spyr afhverju að hafi verið látið viðgangast. Geir H. Haarde segir það með ólíkindum að slík staða geti komið upp í bankakerfinu að einn maður fái ótakmörkuð lán í þremur  bönkum gegnum mörg fyrirtæki.

Geir tekur undir með Davíð Oddssyni um að það hafi verið mistök að flytja fjármálaeftlrit frá Seðlabanka á sínum. Hann fagnar því að Seðlabankinn óski eftir úttekt erlendra sérfræðinga á sínum hlut í málinu og telur ekki að bankastjórnin hafi neinu að kvíða um niðurstöðuna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka