Mistjórnarfundur Framsóknarflokksins síðastliðinn laugardag var mikill hitafundur þar sem tekist var á um um fortíð, nútíð og framtíð í flokksstarfinu. Heimildarmenn Morgunblaðsins, sem sátu fundinn, segja umræðu um Evrópusambandsaðild hafa verið mikið hitamál.
Einnig var fylgishrun undanfarinna ára til umræðu þar, forystan, bæði í fortíð og nútíð, var sökuð um sofandahátt og ónægt þor þegar kæmi að grundvallarmálum, eins og varðstöðu um velferð og samvinnu. Umræðan fór frá því að vera yfirveguð og hófstillt, í að vera„grjóthörð“ og„tætingsleg“ eins og heimildarmaður komst að orði.
Sú ákvörðun Guðna Ágústssonar að segja af sér þingmennsku og hætta sem formaður Framsóknarflokksins, sem tilkynnt var um í gær, kann að hafa byggst á endurmati hans á stöðu sinni að loknum þessum „harða“ miðstjórnarfundi.
Ein harðasta gagnrýni sem fram kom á forystu Framsóknarflokksins á fundinum var frá grasrót flokksins í ungliðahreyfingunni. Bryndís Gunnlaugsdóttir, formaður SUF, sagði flokkinn í raun „forystulausan“ og það væri mikið áhyggjuefni hversu illa gengi að byggja upp fylgi. Eggert Sólberg Jónsson, varaformaður SUF, hélt einnig uppi hvassri gagnrýni á forystuna fyrir að halda ekki nógu vel á spöðunum í mikilvægum málum, meðal annars Evrópumálum. Ráðherrar flokksins í ríkisstjórn Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks, frá 1995 til 2007, voru einnig gagnrýndir af fundarmönnum fyrir sinn þátt í atburðum sem leiddu til hruns íslensku bankanna þriggja.
Þá var skipun í bankaráð nýju bankanna einnig gagnrýnd og það sagt fyrir „neðan virðingu“ Framsóknarflokksins að skipa í þau pólitískt. Forystan fékk þar öll að finna fyrir því, Valgerður Sverrisdóttir varaformaður og Sæunn Stefánsdóttir ritari ekkert síður en Guðni.
Þrátt fyrir harðar og hvassar rökræður um pólitísk málefni má ljóst vera að niðurstaða fundarins er varðar Evrópumálin er líkleg til þess að hafa „ýtt við“ Guðna eins og heimildarmaður Morgunblaðsins komst að orði. Fundurinn samþykkti tillögu Sivjar Friðleifsdóttur um leggja fram tillögu á landsþingi í janúar nk. um að ganga til aðildarviðræðna við Evrópusambandið. Sú niðurstaða var afdráttarlausari en Guðni hafði lagt til. Hann vildi ekki ganga eins langt og meirihluti flokksmanna og varð þannig undir.