Seðlabankastjóri, Davíð Oddsson, kom inn á útrás Íslendinga í erindi sínu á fundi Viðskiptaráðs í morgun og þau viðvörunarorð sem hann hafði um fylgifiska hennar í gegnum tíðina. Hann vísaði til orða sinna á fundum undanfarna tólf mánuði og að lítt hafi verið hlustað á þessi viðvörunarorð. Spurði Davíð að því hvort það hefði verið öðruvísi ef fjölmiðlar hefðu ekki verið í þeim heljargreipum sem þeir voru í.
Að sögn Davíðs varaði hann ítrekað við útrásinni og fylgifiskum hennar. Sagði hann að menn hafi nýtt sér ýmsa hluti til þess, svo sem ódýrt lánsfé ofl. Hins vegar sé íslenska þjóðin orðin óþægilega skuldsett vegna þessa.
Vísaði Davíð þar til orða sinna á fundi Viðskiptaráðs fyrir ári þar sem þetta kom allt fram. Á þeim fundi varaði Davíð stórlega við útrásinni og öllu því sem henni fylgdi, svo sem skuldasöfnunin og hvað lítið þurfi til þess að loftið fari allt úr útrásinni með skelfilegum afleiðingum. Jafnframt vísaði Davíð til ræðu sinnar á ársfundi Seðlabankans frá því í mars þar sem hann varaði einnig við því sem gæti gerst.
Að sögn Davíðs átti bankastjórnin marga fundi með formönnum stjórnarflokkanna og öðrum ráðherrum þar sem varað var við því sem gæti gerst. Sagði hann viðbrögð stjórnmálamannanna við þeim viðvörunarorðum eðlileg þar sem þeir hafi einnig rætt við forystumenn viðskiptabankanna sem fullvissuðu stjórnmálamennina um að allt væri í lagi.
„Auðvitað voru þess háttar varnaðarorð og upplýsingar iðulega settar fram annars staðar heldur en opinberlega, bæði á fundum í bankaráði, með forráðamönnum Fjármálaeftirlits og forráðamönnum bankanna og stjórnvöldum í landinu. Var þá hægt að kveða enn fastar að orði en gert var opinberlega.
Bankastjórnin átti þannig allmarga fundi með ráðherrum og embættismönnum til að lýsa þungum áhyggjum sínum. Þar með talið allmörgum fundum með báðum formönnum stjórnarflokkanna, ýmsum öðrum ráðherrum og embættismönnum.
Viðbrögð þessara aðila voru ekki óeðlileg. Þau voru oftast nær þau, að í kjölfarið af fundi með bankastjórn Seðlabankans áttu þeir fundi með forustumönnum viðskiptabankanna sem fullvissuðu ráðamenn um það að áhyggjur Seðlabankans væru a.m.k. mjög ýktar, fjármögnun bankanna væri góð út árið 2008 og nánast að fullu tryggð út árið 2009."
Davíð vísaði til fundar sem bankastjórnin átti í Lundúnum í febrúar með matsfyrirtækjum og háttsettum bankamönnum þar í landi. Segir hann að þó seðlabankamenn hafi haft áhyggjur af ástandi mála fyrir fundinn þá hafi þeim verið brugðið eftir fundinn og að þeir hafi þegar átt fund með ráðherrum þegar til Íslands var komið. Þar hafi verið lesin skýrsla, sem var til eftir fundinn í Lundúnum. Í skýrslunni kom fram að áhyggjur af Íslandi lutu eingöngu að íslensku bönkunum og stöðu þeirra. Ef þeim yrði hált á svellinu þá myndu fleiri falla með.
Davíð sagði, að af skýrslunni megi draga þá niðurstöðu, að íslenska bankakerfið hefði verið í verulega hættu á þeim tíma sem skýrslan var kynnt, það er í febrúar. Þar kom fram að markaðir verði almennt lokaðir íslensku bönkunum sem og öðrum bönkum næstu mánuði og í allt að tvö ár.
Davíð las upp úr skýrslunni þar sem fram kemur það mat, að þegar alþjóðlegir lánsfjármarkaðir loks opnast á ný muni þekktir bankar fyrst fá aðgang að lánsfé en þeir íslensku síðar. Það módel, að fella íslensku skuldabréfin í vafningapakka, sé að engu orðið og komi ekki aftur.
Þá er leitt að því líkum, að það myndi vissulega ekki hjálpa Kaupþingi flytja höfuðstöðvar úr landi líkt og haldið hefði verið fram en það myndi hins vegar létta stöðu annarra banka mikið en þá var talið, að hægt yrði að bjarga hinum bönkunum frá falli.
Í skýrslunni kemur einnig fram, að skortstaða hafi verið tekin á íslensku bankana í trausti þess að markaðir yrðu þeim lokaðir til langs tíma og ekki væri hægt að bjarga þeim frá falli af Seðlabanka. Niðurstaða skýrslunnar er sú, að ljóst sé að íslensku bankarnir hafi stefnt sér og íslensku fjármálalífi í stórhættu með framgöngu sinni undanfarin ár. Nauðsynlegt sé að vinda strax ofan af stöðunni.
„Fulltrúar Seðlabankans áttu fundi í London í fyrri helmingi febrúarmánaðar á þessu ári. Þeir voru með háttsettum mönnum í fjölmörgum stærstu bönkunum, sem mest viðskipti áttu við Ísland og íslensk fyrirtæki, og eins fundir með matsfyrirtækjum sem þar eru staðsett. Þótt Seðlabankamenn hafi lengi haft áhyggjur af stöðu bankakerfisins, varð þeim mjög brugðið vegna þeirra viðhorfa, sem komu fram á fundunum í London.
Þegar heim var komið var óskað eftir fundi með forustumönnum ríkisstjórnarflokkanna, fleiri ráðherrum og embættismönnum, og fékkst sá fundur. Þar var lesin upp í heild skýrsla um ferðina sem þá var til í handriti.
Skýrsla þessi er alllöng. Ég mun hér vitna til hluta hennar en nöfnum einstakra aðila sleppt utan einu sinni, þar sem nafn verður að vera með samhengisins vegna.
Í fyrri tilvitnuninni segir svo: „Ljóst er að áhyggjur af Íslandi litast eingöngu af áhyggjum af íslensku bönkunum, og talið að fyrirferð þeirra í fjármálalífi Íslendinga sé slík, að verði þeim hált á svelli, þá detti aðrir með þeim. Eftir almennan gegnumgang [ ] um stöðu efnahagsmála og þær breytingar sem orðið hafa og það sem snýr sérstaklega að ríkinu og verkefnum Seðlabankans, var fjallað töluvert um bankana af þeirra hálfu. Lokaspurning þeirra varð síðan sú, hvað gerist ef íslensku bankarnir komast ekki, eða ekki svo neinu nemi, á markaðina næstu tólf mánuði eða svo? Svar Seðlabankamanna var efnislega það, að ef slíkt gerðist, þá væru erfiðleikarnir orðnir mjög miklir fyrir íslensku viðskiptabankana, en á það yrði að benda að við þær aðstæður hlyti bankaheimurinn allur að standa svo illa að tala mætti um bankakreppu, ef ekki heimskreppu. En þessi spurning [ ], svo ónotaleg sem hún virtist, varð Seðlabankamönnum skiljanlegri þegar leið á þessa fundaferð.”
Ég minni enn á, að þarna er verið að lýsa aðstæðum og umræðum fyrir meira en sjö mánuðum. Seinni tilvitnunin er úr niðurlagi þessarar skýrslu, en þar segir: „En þá niðurstöðu má draga af þessum viðræðum og ummælum manna, sem svo vel til þekkja, en voru auðvitað settar fram með misskýrum hætti, að íslenska bankakerfið væri í mikilli hættu, ekki síst vegna þess hvernig það hefur þanist út, skipulagslítið og ógætilega á undanförnum árum, í því trausti að lánsfjárútvegum yrði ætíð leikur einn. Markaðir verði almennt lokaðir íslensku bönkunum a.m.k. næstu tólf mánuði og telja þó sumir að 24 mánuðir sé líklegri tími hvað það varðar. Auðvitað þarf að undirstrika rækilega þá óvissu sem í slíkum fullyrðingum felst. En niðurstaðan er rökstudd svo, að þegar markaður loks opnist muni stórir, öflugir og þekktir bankar fá aðganginn fyrst, en síðast kemur að minni bönkum og íslenskir bankar verða mjög aftarlega í röðinni. Og þau “módel” að fella íslensku skuldabréfin í „vafningspakka”, sem gerði þau eftirsóknarverða vöru, eru horfin úr myndinni og munu ekki koma aftur.
Það mundi vissulega ekki hjálpa Kaupþingi á nokkurn hátt að flytja höfuðstöðvar sínar úr landi, eins og sumir viðmælendur töldu álitlegan kost, en það mundi hins vegar létta stöðu annarra banka mikið og vera jákvætt fyrir fjármálalíf Íslands eins og staðan er, því þá mundi verða talið að íslenski Seðlabankinn og ríkið myndu geta bjargað þeim bönkum sem eftir væru frá falli, ef sú neyðarstaða yrði uppi.
Það var talin ein meginskýring á háum CDS kjörum þessara banka, að þessi staða sem seðlabankamenn væru að kynnast til fulls núna og kyngja, væri tiltölulega vel þekkt á markaði og því hefði skortsstaða verið tekin á íslensku bankana í trausti þess að markaðir yrðu þeim algerlega lokaðir lengi og til viðbótar kæmi að íslenski Seðlabankinn og ríkið væru ekki af þeirri stærð og styrk til að hafa bolmagn til að bjarga þeim frá falli, þótt vilji stæði til þess. Sumir töldu að það eina sem gæti slegið á þessi háu eftirá kjör væri ef íslenski Seðlabankinn gæti náð samningi við erlenda seðlabanka um að veita bankanum fyrirgreiðslu í nauð, sem dygði til þess að hann gæti staðið að sínu leyti til við björgunaraðgerðir á íslensku bankakerfi.
Niðurstaðan er þessi: Það er ljóst, að íslensku bankarnir [ ] hafa stefnt sér og það sem verra er, íslensku fjármálalífi, í mikla hættu, og jafnvel í hreinar ógöngur, með ábyrgðarlausri framgöngu á undanförnum árum. Hættulegt er að hafast ekkert að í þeirri von að markaðir opnist óvænt og allur vandi verði þá úr sögunni. Nauðsynlegt er að hefjast þegar handa við að vinda ofan af stöðunni svo hún verði ekki óleysanleg. Ekki er hægt að útiloka að miklu fyrr rætist úr markaðsaðstæðum og aðgengi að fjármagni en nú er talið. Ekkert bendir þó enn til þess og ef menn láta sér nægja að lifa í voninni verður of seint að bregðast við þegar ljóst verður að vonin rætist ekki.”