Guðjón Sigurðsson, formaður MND félagsins, var nýlega kjörinn formaður Alþjóðasamtaka MND félaga til fjögurra ára. Hann er fyrsti formaður samtakanna sem kemur úr hópi sjúklinga. Guðjón tók við stjórnartaumum í alþjóðasamtökunum 31. október s.l. á fundi í Birmingham í Englandi.
„Þetta leggst vel í mig,“ sagði Guðjón. „Ég er fyrsti sjúklingurinn sem tekur embættið. Fram að þessu hafa formenn verið úr hópi starfsmanna MND-félaga. Það verða örugglega breyttar áherslur og ég hlakka til að slást á þessum markaði.“
Guðjón kvaðst ætla að setja á oddinn að efla rannsóknir á MND sjúkdómnum. Markmiðið er að félagsskapurinn verði óþarfur vegna þess að lækning finnist fyrir MND veika. Einnig vill hann fjölga aðildarríkjum Alþjóðasamtaka MND félaga. Nú eiga 49 þjóðir aðild að þeim. „Mig vantar nokkur í viðbót,“ sagði Guðjón. Hann sagði aðild svolítið hafa ráðist af því hvar þjónusta er fyrir hendi fyrir MND veika og hvar hægt er að stofna félög.
Það eru tímamót í sögu Alþjóðasamtaka MND félaga að formaðurinn skuli valinn úr hópi sjúklinga. „Bæði er þetta viðurkenning á okkar starfi, hér á Íslandi, og eins þetta að einhver skuli vera nógu vitlaus til að taka þetta að sér úr hópi okkar sjúklinga! Auðvitað á veikt fólk yfirleitt nóg með sjálft sig, en þetta er bara gaman og ákaflega gefandi. Við höfum grætt mjög mikið á þessari samvinnu. Þetta er spurningin um að allir séu ekki að reyna að finna upp hjólið um leið,“ sagði Guðjón.