Rússar hafa ekki bolmagn til að lána Íslendingum fjóra milljarða Bandaríkjadollara, um 540 milljarða króna, að því er hátt settur rússneskur embættismaður skýrði frá í gærkvöldi.
„Fjórir milljarðar dala eru of mikið,“ sagði Dmítrí Pankin, aðstoðarfjármálaráðherra Rússlands í gær.
Lagði Pankin sérstaka áherslu á dollara í þessu samhengi en fyrir nokkrum vikum var mikið rætt um möguleikann á fjögurra milljarða evra Rússaláni.
Íslensk sendinefnd hélt utan til Moskvu í síðasta mánuði til að ræða möguleika á láninu og urðu þær viðræður til að ýta undir áhuga annarra ríkja á að koma íslenska ríkinu til aðstoðar.
Á vef dagblaðsins The Moscow Times er haft eftir Pankin að lokaákvörðun Rússa muni taka mið af ákvörðunum annarra lánveitenda, svo sem Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og Norðurlandanna, að viðbættum aðgerðum Breta og Hollendinga í Icesave-málinu.
Fyrr í haust vísaði rússneska fjármálaráðuneytið á bug fréttum af viðræðunum við Íslendinga en staðfesti þær svo síðar eftir að Seðlabanki Íslands staðfesti að rætt hefði verið við Vladímír Pútín Rússlandsforseta um möguleika á láni.