Ekki er útlit fyrir að fyrrverandi tryggingatakar hjá Samvinnutryggingum g.t. á árunum 1987 og 1988 muni fá neitt í sinn hlut við uppskiptingu á hlutafé Giftar fjárfestingafélags sem stofnað var utan um skuldbindingar Eignarhaldsfélags Samvinnutrygginga.
Sigurjón Rúnar Rafnsson, sem sagði af sér sem stjórnarformaður Giftar 7. nóvember síðastliðinn, staðfesti við Morgunblaðið í gær að skuldir Giftar væru hærri en sem næmi virði eigna. Hann vildi lítið segja um ástæður þess að hann hætti.
„Ég hætti af persónulegum ástæðum, þar sem ég hef nóg annað að gera,“ sagði Sigurjón Rúnar sem er aðstoðarkaupfélagsstjóri Kaupfélags Skagfirðinga. Sigurjón Rúnar hafði starfað sem stjórnarformaður frá því í vor. „Öðru fremur var verkefni stjórnar að tryggja félaginu trausta fjármögnun en forsendur fyrir henni brustu auðvitað við fall Kaupþings,“ segir Sigurjón Rúnar en stærsta eign félagsins fyrir yfirtöku Fjármálaeftirlitsins á Glitni, Landsbankanum og Kaupþingi var hlutur í Kaupþingi.
Fyrir yfirtökuna á bankanum var markaðsvirði hlutarins um 12,5 milljarðar. Hann er nú að engu orðinn.
Eins og greint hefur verið frá í Morgunblaðinu undanfarna daga er staða Giftar afar óljós og óvíst hvort áform um slit á hlutafé félagsins verða að veruleika. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins er þess meðal annars beðið hversu mikið tap félagsins verður á eignum sem skilanefndir bankanna vinna nú með.