Ísland á dagskrá IMF í fyrramálið

„Það er alveg ljóst að samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, (EES) er Íslendingum óheimilt að mismuna innistæðueigendum. Það er líka ljóst að stjórnvöldum ber að ábyrgjast innstæður ef tryggingasjóður innlána dugir ekki fyrir innistæðum,“ segir Percy Westerlund, sendiherra og yfirmaður fastanefndar Evrópusambandsins gagnvart Íslandi.

Hann fjallar um samkomulag um lausn Icesave-deilunnar í nýjum pistli. Westerlund segir að svo virðist sem Íslendingar hafi nú, eftir nokkurra vikna óvissu, gengist við ábyrgðum á Icesave-reikningum í samræmi við ákvæði EES-samningsins. Samkomulag hafi tekist um hvernig viðræðum, undir forystu Frakka, verði háttað en Íslendingar verði að ná samkomulagi við hverja þjóð fyrir sig.

„Hins vegar segir í samkomulaginu að tekið skuli tillit til hinna erfiðu og fordæmislausu aðstæðna sem Ísland er í og knýjandi nauðsynjar þess að ákveða ráðstafanir sem gera Íslandi kleift að endurreisa fjármála- og
efnahagskerfi sitt,“ segir Westerlund.

IMF afgreiðir umsókn Íslands á morgun

Samkomulagið við ESB liðkar fyrir því að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, (IMF) afgreiði lánsumsókn Íslendinga segir Westerlund.

Samkvæmt dagskrá stjórnar IMF, verður lánsumsókn Íslendinga tekin fyrir á fundi í fyrramálið.

Það ætti að koma hlutunum á hreyfingu á Íslandi segir Westerlund. Hann segir allar líkur benda til að norrænu þjóðirnar fylgi í kjölfarið og láni Íslendingum fé, sama megi segja um aðildarríki ESB og framkvæmdastjórn ESB.

Afstaðan til ESB

Percy Westerlund skrifar um stjórnmálaástandið á Íslandi, fundahöld Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks og ákvarðanir þeirra sem lúta að afstöðu til ESB

„Sérfræðingar telja margir að breytinga sé að vænta á neikvæðri afstöðu beggja flokka til ESB-aðildar og það er jafnvel talið líklegt að umsókn um ESB-aðild berist frá Íslandi á vordögum. Gangi það eftir hljóta að vakna spurningar um samskipti Noregs við ESB,“ skrifar Percy Westerlund, sendiherra og yfirmaður fastanefndar Evrópusambandsins gagnvart Íslandi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert