Rætt um Moskvu og Genf

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra og Jørgen Niclasen, utanríkisráðherra Færeyja á …
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra og Jørgen Niclasen, utanríkisráðherra Færeyja á blaðamannafundinum í dag. mbl.is/Kristinn

Færeyingum stendur til boða að nota sendiráð Íslands í Moskvu og Genf, samkvæmt frétt færeyska útvarpsins í dag. Þetta mun vera meðal niðurstaðna af fundi þeirra Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur utanríkisráðherra og Jørgen Niclasen, utanríkisráðherra Færeyja, í dag.

Færeyingum mun standa til boða skrifstofuaðstaða í sendiráðinu í Genf og að þeir geti nýtt sér þjónustu íslenska sendiráðsins í Moskvu. Í netfrétt Sosialurin er haft eftir færeyska utanríkisráðherranum að þessi fyrirgreiðsla geti haft mikla þýðingu fyrir færeyska utanríkisþjónustu í framtíðinni þegar leitað verður inngöngu í Fríverslunarsamtök Evrópu (EFTA) og Alþjóðaviðskiptastofnunina (WTO). Sá möguleiki að njóta aðstoðar sendiráðs Íslands í Moskvu geti komið sér vel þar til Færeyingar komi sjálfir á fót sendiskrifstofu í Rússlandi. Þetta tilboð Íslendinga sé staðfesting á góðri samvinnu bræðraþjóðanna Íslands og Færeyja.

Jørgen Niclasen, utanríkisráðherra Færeyja, átti síðdegis fundi með Geir H. Haarde forsætisráðherra og Árna M. Mathiesen fjármálaráðherra, að sögn netfréttar Sósialsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert