Færeyingum stendur til boða að nota sendiráð Íslands í Moskvu og Genf, samkvæmt frétt færeyska útvarpsins í dag. Þetta mun vera meðal niðurstaðna af fundi þeirra Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur utanríkisráðherra og Jørgen Niclasen, utanríkisráðherra Færeyja, í dag.
Færeyingum mun standa til boða skrifstofuaðstaða í sendiráðinu í Genf og að þeir geti nýtt sér þjónustu íslenska sendiráðsins í Moskvu. Í netfrétt Sosialurin er haft eftir færeyska utanríkisráðherranum að þessi fyrirgreiðsla geti haft mikla þýðingu fyrir færeyska utanríkisþjónustu í framtíðinni þegar leitað verður inngöngu í Fríverslunarsamtök Evrópu (EFTA) og Alþjóðaviðskiptastofnunina (WTO). Sá möguleiki að njóta aðstoðar sendiráðs Íslands í Moskvu geti komið sér vel þar til Færeyingar komi sjálfir á fót sendiskrifstofu í Rússlandi. Þetta tilboð Íslendinga sé staðfesting á góðri samvinnu bræðraþjóðanna Íslands og Færeyja.
Jørgen Niclasen, utanríkisráðherra Færeyja, átti síðdegis fundi með Geir H. Haarde forsætisráðherra og Árna M. Mathiesen fjármálaráðherra, að sögn netfréttar Sósialsins.