Áætlunarflugvél Flugfélagsins Ernir á leið til Hafnar í Hornafirði nú síðdegis lenti í mikilli ókyrrð sunnan jökla. Hörður Guðmundsson framkvæmdastjóri sagði að ókyrrðin hafi staðið óvenju lengi eða í 5-7 mínútur. Átta manns voru um borð í flugvélinni sem er af gerðinni Cessna 406 Caravan II.
Hörður sagði að engar viðvaranir í lofti hafi verið gefnar út fyrir þetta svæði fyrr en eftir að flugvélin lenti í ókyrrðinni. Hann hafði eftir flugstjóranum að mikil ókyrrð hafi verið sunnan jökla. Flugmennirnir, sem báðir eru langreyndir, sögðu Herði að þeir hefðu aldrei lent í viðlíka ókyrrð á þessari flugleið. Allir sem voru um borð hafi verið mjög rólegir. Einn farþeganna var gamall maður sem var að koma heim af sjúkrahúsi. Hann var til öryggis sendur aftur til Reykjavíkur til eftirlits með sjúkraflugvél.
Í bakaleiðinni var flaug áætlunarflugvélin yfir Vatnajökul, norðan Hvannadalshnjúks. Þar var stífur mótvindur en ekki ókyrrð. Cessna 406 Caravan II er hraðfleyg skrúfuþota og tekur allt að 9 farþega.