Leysa ekki vanda skuldugra heimila

Ingólfur V. Ingólfsson framkvæmdastjóri Spara.is segir aðgerðir ríkisstjórnarinnar til að leysa vanda heimilanna skammarlegar og ekki hægt að kalla þær bjargræði fyrir yfirskuldsett heimili. Ekkert sé í þessu sem skipti verulegu máli.

Ingólfur segir að djásnið í aðgerðunum sem kynntar voru á föstudag sé greiðslujöfnunin en hún sé eingöngu frestun, eftirstöðvarnar fari inn á biðreikning og safni vöxtum og verðbótum. Að vísu geti þessi ráðstöfun lækkað greiðslubyrði um tíma.

Ingólfur vinnur við að ráðleggja fólki um hvað megi betur fara í fjármálum heimilanna. Hann segist hafa viljað sjá að Íbúðalánasjóður tæki yfir öll húsnæðislán. Þeir sem hefðu fengið lánað hjá bönkunum hefði þannig notið sömu kjara og viðskiptavinir sjóðsins njóta nú, meðal  annars með frystingu lána til þriggja ára. Hann segist ennfremur vilja að verðtrygging lána verði fryst því að það sé hún sem sé að fara með fjárhag heimilanna.

Ingiólfur er ekki hrifinn af hugmyndum um að greiða út séreignasparnað. Hann segir það stórhættulega hugmynd. Ef sú leið verði farinn að greiða út sparnað sé úti um öll bjargræði til að byggja upp landið. Skuldugasta ríki í heimi muni ekki fá lán til stórframkvæmda. Það þurfi peninga til að byggja upp nýtt Ísland. Það megi ekki verða örbirgðaland næstu tíu til fimmtán árin.

 Jóhannes Gunnarsson hjá Neytendasamtökunum  segir aðgerðir ríkisstjórnarinnar  leysa einhvern vanda en ekki vanda skuldugustu heimilanna. Hann segir að brýnast væri að samþykkja frumvarp um greiðsluaðlögun sem myndi gera kleift að fella niður hluta af höfuðstól lána fólks sem ekki getur að öðrum kosti staðið í skilum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert