Ágætis mæting var á fyrsta fundinum í fundaherferð ASÍ sem haldinn var í Fjölbrautarskóla Suðurnesja í Reykjanesbæ í kvöld. Gylfi Arnbjörnsson forseti ASÍ var þar með framsögu og Guðbrandur Einarsson, formaður Verslunarmannafélags Suðurnesja ávarpaði fundinn. Yfirskrift herferðarinnar er Áfram Ísland - fyrir hag heimilanna.
„Þetta var líflegur fundur og heilmiklar umræður,“ sagði Gylfi Arnbjörnsson eftir fundinn. „Fólki liggja mikið á hjarta áhrif verðtryggingarinnar og hækkun lána. Það voru skiptar skoðanir um hvaða áhrif það myndi hafa að afnema eða frysta verðtryggingu. Á endanum held ég að menn hafi verið sammála um að leiðin út úr þessum ógöngum sé að fólgin í því að fá breiðara og sterkara efnahagskerfi. Áhersla okkar á upptöku evrunnar tengist þessu æði mikið.“
„Það hefði mátt vera betri mæting en var þó ágætis mæting. Ég hefði viljað sjá fleiri á fundinum,“ sagði Guðbrandur Einarsson. Hann sagði að fundarmönnum hafi verið mikið niðri fyrir. „Það sem fólk er fyrst og síðast að velta fyrir sér er hvort að það haldi yfirhöfuð húsunum sínum. Hvort verðtryggingin hangi þannig um hálsinn á fólki að það tapi eignum í ljósi þeirrar verðbólgu sem við sjáum framundan. Fólk er óttaslegið út af því.“
Guðbrandur sagði bjarta punktinn vera þann að við eigum möguleika á stöðugleika hér líkt og annars staðar. „Innganga í Evrópusambandið muni leiða til þess að við munum ganga inn í sama stöðugleikaumhverfi og aðrar Evrópuþjóðir búa við. Það er að verða mjög hávær krafa landsmanna að okkur verði boðið upp á sams konar stöðugleika. Maður fann það á fundarmönnum að það er greinilegur vilji til þess.“
Fundurinn samþykkti ályktun þar sem stjórnvöld voru m.a. hvött til að standa vörð um hagsmuni heimilanna. Komið yrði í veg fyrir að fólk lendi í alvarlegum greiðsluerfiðleikum eða missi ofan af sér. Jafnframt var brýnt fyrir stjórnvöldum að taka afstöðu til Evrópusambandsins og upptöku evrunnar og að tryggja að fólki hér standi til boða sambærileg húsnæðislán og bjóðast í nágrannalöndunum.
Næsti fundur í fundaherferð ASÍ verður í Grundaskóla á Akranesi á morgun, 19. nóvember, og hefst hann kl. 20.00.