Guðlaugur Þór Þórðarson, heilbrigðisráðherra, kynnti í dag nýja heilsustefnu. Hann sagði við það tilefni að að hún væri liður í því að geta veitt heilbrigðisþjónustu á heimsmælikvarða. Snar þáttur í því væri að leggja stóraukna áherslu á forvarnir á öllum sviðum og stuðla að heilbrigðari lífsháttum einstaklinganna.
Heilbrigðisráðherra sagði það brýnt að skapa þjóðfélag þar sem fólk ætti þess auðveldlega kost að taka heilsusamlegar ákvarðanir, einkum með geðrækt, næringu og hreyfingu í huga.
„Það var niðurstaða okkar að þrátt fyrir hina þröngu fjárhagsstöðu sem við stöndum frammi fyrir væri ástæðulaust að bíða með að kynna þá hugmyndafræði og aðgerðir sem eru niðurstaða þeirrar vinnu sem unnin hefur verið. Við höfum nefnilega á miklu að byggja, við eigum traustar stofnanir og sterk félagasamtök og við getum gert mjög margt með samtakamætti,“ sagði Guðlaugur. „Ég tel að á þessum tímapunkti sé ekki síður mikilvægt að auka vægi aðgerða sem stuðla að bættri lýðheilsu og vellíðan. Mjög margt hefur gerst í samfélaginu sem mun hafa afar slæm áhrif á líðan fólks ef ekkert er að gert.“
Samfara kynningunni sem var á heilsustefnunni í dag skuldbundu fjölmargir aðilar sig, með undirritun sérstakrar yfirlýsingar, að taka virkan þátt í að hrinda stefnunni í framkvæmd. Yfirlýsingin er svo hljóðandi: Markmið heilsustefnunnar er að skapa samfélagslegar forsendur sem stuðla að bættri heilsu allra landsmanna. Öflugt samfélag byggir á góðu heilsufari og góðri líðan landsmanna. Því er afar brýnt að um heilsustefnuna sé breið samstaða og hún höfði til sem flestra, einstaklinga og hópa og hvetji þá til virkni. Þannig mun heilsustefnan hafa áhrif til eflingar samfélagsins í heild. Við undirrituð styðjum Heilsustefnuna, þá aðgerðaráætlun sem lögð er fram til kynningar, og viljum leggja okkar af mörkum til að stuðla að heilbrigðari lífsháttum landsmanna.
Félagssamtök, sveitarfélög, áhugahópar og fleiri rituðu undir yfirlýsinguna á fundinum í dag. Það hefur enda verið lögð á það rík áhersla við undirbúning og útfærslu heilsustefnunnar, að stefna saman fjölmörgum aðilum til að ná breiðri samstöðu um markmið og leiðir.