Sóknarprestur á Akureyri breytti ekki siðferðilega rétt þegar hann skírði sjö ára barn án samþykkis foreldris. Foreldrar barnsins fóru með sameiginlega forsjá og lét móðirin skíra barnið að föðurnum forspurðum. Áfrýjunarnefnd þjóðkirkjunnar telur að prestinum hafi borið siðferðileg skylda til að leita eftir samþykki eða afstöðu föðurins.
Barnið var skírt í Akureyrarkirkju í febrúar síðastliðnum en þá var barnið sjö ára. Foreldrarnir voru skilin, faðirinn bjó fyrir sunnan en móðirin fyrir norðan. Foreldrar barnsins fóru með sameiginlega forsjá en barnið átti lögheimili hjá föður sínum fyrir sunnan. Bæði móðir og barn voru skráð í Kaþólsku kirkjuna en faðirinn hefur haft sterkar skoðanir á þjóðkirkjunni og skírn og var mótfallinn skírn barnsins.
Faðirinn kærði til úrskurðarnefndar þjóðkirkjunnar sem taldi að prestinum hefði ekki verið óheimilt að skíra barnið. Ekki væri ekki hægt að úrskurða skírnina marklausa eða óleyfilega. Þá var bótaskyldu hafnað og sömuleiðis því að grípa til úrræða gagnvart prestinum.
Faðirinn áfrýjaði til áfrýjunarnefndar þjóðkirkjunnar. Nefndin telur prestinn ekki hafa breytt siðferðilega rétt. Prestinum hafi mátt vera ljóst að faðir og móðir færu með sameiginlega forsjá, barnið ætti lögheimili hjá föður sínum, að faðrinn hefði sterkar skoðanir á þjóðkirkjunni og skírn á vegum hennar, sem gætu vala talist jákvæðar og loks að móðir og dóttir tilheyrðu öðru trúfélagi.
Nefndin telur að það hafi verið í þágu barnsins að skíra það til kristinnar trúar en draga verði í efa að það hafi verið því fyrir bestu að taka skírn í andstöðu við föður sinn.
Áfrýjunarnefndin segir hugtakið siðferðisbrot hafa mjög óljósa merkingu í lagamáli. Ganga megi að því vísu að siðferðisbrot þurfi ekki að vera refsivert brot að lögum, jafnvel ekki neins konar réttarbrot. Siðferðisbrot þurfi ekki heldur að vera svívirðilegt að almenningsáliti.
Nefndin hafnar kröfum föðurins um að skírnin verði úrskurðuð marklaus eða óleyfileg og vísar frá bótakröfum hans á hendur Þjóðkirkjunni.
Áfrýjunarnefndin hafnar því , líkt og úrskurðarnefnd þjóðkirkjunnar, þeirri kröfu föðurins að grípa til aðgerða gagnvart prestinum.
Úrskurðarorð áfrýjunarnefndar þjóðkirkjunnar:
Séra Svavar Alfreð Jónsson breytti ekki siðferðilega rétt í skilningi 1. mgr. 12. gr. laga nr. 78/1997 þegar hann skírði dóttur kæranda hinn 2. febrúar 2008.
Staðfest er sú ákvörðun úrskurðarnefndar þjóðkirkjunnar að hafna kröfu kæranda um að grípa til viðeigandi úrræða gagnvart séra Svavari.
Þeim kröfum kæranda, að skírn sú, sem að framan greinir, verði úrskurðuð marklaus eða óleyfileg og að hann eigi bótakröfu á hendur þjóðkirkjunni vegna skírnarinnar, er vísað frá.
Kirkjumálasjóður skal greiða allan kostnað áfrýjunarnefndar við uppkvaðningu úrskurðar þessa.
Reykjavík, 20. október 2008
Eiríkur Tómasson, Ásdís J. Rafnar, Lára G. Hansdóttir, Pétur Pétursson, Salvör Nordal.