Ekki verður gengið frá láni frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum (IMF) nema þingið samþykki áður þingsályktunartillögu þar sem ríkisstjórninni er falið að leiða til lykta áform um fjárhagslega fyrirgreiðslu hjá sjóðnum á grundvelli viljayfirlýsingar íslenskra stjórnvalda. Miðað er við að heildarlánið frá sjóðnum verði rúmlega tveir milljarðar dollara en þrír milljarðar komi annars staðar frá. Heildarlánið verður því um fimm milljarðar dollara en áður hafði verið rætt um að það yrði um sex.
Leiðtogar stjórnarandstöðunnar gagnrýndu ríkisstjórnina fyrir að hafa gengið frá láninu og samningum um Icesave-reikingana án samráðs við þingið. Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG, sagði að ríkisstjórnin hefði gefist upp í málinu og rifjaði upp yfirlýsingar sem ráðherrar hefðu gefið um deilu Íslands og Breta um Icesave-reikningana. Hann sagðist ekki lengur eiga í neinu samstarfi við ríkisstjórnina um þessi mál.
Siv Friðleifsdóttir, formaður þingflokks framsóknarmanna, vildi fá skýr svör um hvort búið væri að skrifa undir samkomulag um þetta mál og ef svo væri hver hefði gert það og hvenær það hefði verið gert.
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra sagði að niðurstaða í samningum um ábyrgð Íslands á innstæðum á Icesave-reikningum Landsbankans hefði ekki legið fyrir fyrr en á laugardagskvöld. Hún sagðist ekki vita hvort einhver hefði skrifað undir en hún væri búin að segja við sendiherra Íslands í Brussel, að Íslendingar féllust á að þau viðmið, sem samið var um, lægju til grundvallar í frekari viðræðum um ábyrgðirnar.
Steingrímur spurði Geir H. Haarde forsætisráðherra hvort rétt væri að þessir samningar allir fælu í sér að ríkissjóður Íslands væri að taka á sig 1.450 milljarða brúttóskuldir. Geir sagði framsetningu Steingríms undarlega. Ekki væri hægt að leggja saman lánið sem fyrirhugað væri að taka hjá IFM við skuldbindingar sem ætti að borga vegna Icesave.
Geir sagði varðandi gagnrýni á samráð við Alþingi, að það vinnulag hefði lengi verið viðhaft að stjórnvöld gengju frá samningum sem síðan yrðu lagðir fyrir Alþingi til samþykktar eða synjunar. Þingið fengi tækifæri til að segja sitt álit á málinu með því að greiða atkvæði um tillöguna. Ef tillögunni yrði hafnað væri málið þar með úr sögunni.
Fram kom í máli utanríkisráðherra að miklir erfiðleikar hefðu verið við að leysa deiluna við Breta fyrir dómstólum. Ekki hefði náðst samkomulag um hvaða dómstóll ætti að taka málið fyrir.