Ásókn í störf í útlöndum

Gríðarlegur áhugi er á störfum erlendis hjá fólki sem hefur misst vinnuna eða óttast atvinnumissi.  Erlend fyrirtæki sjá sér leik á borði og  vilja senda útsendara hingað til lands til að leita að starfsfólki. Árið 2006 þegar Vinnumálastofnun og Evrópska vinnumiðlunin Eures héldu fyrsta kynningarfund sinn um störf í boði í Evrópusambandslöndunum þá mætti aðeins einn.  Um helgina er slíkur kynningarfundur haldinn í þriðja sinn og þá er annað upp á teningnum. Valdimar Ólafsson ráðgjafi hjá Eures segist verða hissa ef það komi færri en tvöþúsund.

Þrjú þúsund Íslendingar hafa kynnt sér tíu störf er tengjast olíuiðnaði í Noregi og fyrirtækið Job.is auglýsti á heimasíðu sinni. Valdimar segir mesta eftirspurn eftir sérmenntuðu starfsfólki til að mynda verkfræðingum, tölvu- og tæknifræðingum. Engin hefur þó enn sem komið er sýnt áhuga á að fá íslenska viðskiptafræðinga eða hagfræðinga í vinnu. Alls koma ráðgjfar hingað frá átta löndum til að kynna laus störf. Norðmenn hafa þó mestan áhuga enda skortir þar sérmenntað starfsfólk, ekki síst verkfræðinga og tölvu og tæknifræðinga. Þá sýna Hollendingar iðnaðarmönnum áhuga.

Á Vinnumálastofnun við Engjateig var troðfullt út úr dyrum í dag. Atvinnuleysi  jókst um fimmtán prósent í þessari viku en nú eru um sjöþúsund manns á atvinnuleysisskrá á landinu öllu. Valdimar Ólafsson segir að miðað við þann áhuga og þá eftirspurn sem sé eftir störfum erlendis þá kæmi það mikið á óvart ef ekki yrðu miklir þjóðflutningar frá Íslandi næstu árin.

  
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert