Líkur á aukinni makrílgengd

Makríll hefur veiðst í talsverðum mæli á Íslandsmiðum undanfarið.
Makríll hefur veiðst í talsverðum mæli á Íslandsmiðum undanfarið. Líney Sigurðardóttir

Íslensk stjórn­völd eru bjart­sýn á að Íslandi verði boðið að samn­inga­borðinu þegar samið verður um stjórn mak­ríl­veiða á næsta ári, þannig að Ísland verði aðili að strand­ríkja­sam­komu­lagi því sem ESB, Nor­eg­ur og Fær­eyj­ar standa að. Þetta kem­ur fram í Andrá, vef­riti um sjáv­ar­út­veg og land­búnað.

Í vef­rit­inu, sem gefið er út af sjáv­ar­út­vegs- og land­búnaðarráðuneyt­inu, er grein um mak­ríl­veiðar Íslend­inga. Þar er fjallað um tregðu ríkja inn­an Norðaust­ur Atlants­hafs­fisk­veiðinefnd­ar­inn­ar (NEAFC) við að viður­kenna með form­leg­um hætti að mak­ríll veiðist nú í ís­lenskri lög­sögu og að veita Íslend­ing­um eðli­leg­an kvóta í sam­ræmi við það.   

„Und­an­far­in ár hafa hin strand­rík­in dregið í efa magn mak­ríls inn­an ís­lensku lög­sög­unn­ar og talið að ís­lensk stjórn­völd þurfi að sanna með af­ger­andi hætti að mak­ríl sé að finna í veru­lega veiðan­legu magni. Árið 2007 veiddu ís­lensk skip rúm 30 þús. tonn og í ár voru veiðarn­ar rúm 100 þús. tonn. Það er því ljóst að mak­ríll er inn­an ís­lenskr­ar lög­sögu og jafn­framt að magn hans hef­ur auk­ist und­an­far­in ár. Tölu­verðar lík­ur eru á að sú aukn­ing haldi áfram í ljósi hlýn­un­ar sjáv­ar. Þrátt fyr­ir þess­ar staðreynd­ir hef­ur Íslandi verið neitað um að taka þátt í samn­ingaviðræðum strand­ríkja um stjórn mak­ríl­veiða.

Gild­andi sam­komu­lag um stjórn mak­ríl­veiða nær til út­hafs­ins á samn­ings­svæði NEAFC og lög­sögu Evr­ópu­sam­bands­ins, Nor­egs og Fær­eyja. Veiðar ís­lenskra skipa hafa nær und­an­tekn­inga­laust verið utan þess svæðis sem sam­komu­lagið nær til. Þegar veiðarn­ar færðust út fyr­ir lög­sögu setti Ísland sér ein­hliða kvóta á út­haf­inu í sam­ræmi við regl­ur NEAFC. Ísland er í full­um rétti að nýta auðlind sem er inn­an efna­hagslög­sögu lands­ins og halda öðru fram er því í þver­sögn við alþjóðalög. Hins veg­ar fylg­ir þeim rétti að nýta sam­eig­in-lega auðlind, sú skylda að ríki leit­ist eft­ir sam­vinnu við önn­ur strand­ríki. Ísland hef­ur óskað eft­ir slíkri sam­vinnu um ára­bil en þeirri beiðni hef­ur verið hafnað ít­rekað af hinum strand­ríkj­un­um,“ seg­ir m.a. í grein Andrár.

Í grein­inni kem­ur einnig fram að ís­lensk­um skip­stjór­um standi tveir aðrir kost­ir til boða í stöðunni. Það er að hætta síld­veiðum til að forðast veiðar á mak­ríl eða henda mak­rílafl­an­um í sjó­inn aft­ur. „Brott­kast er lög­brot á Íslandi þó að það sé hins veg­ar bein­lín­is skylda í ýms­um veiðum inn­an ESB,“ seg­ir í grein­inni í Andrá.

Andrá, vef­rit sjáv­ar­út­vegs- og land­búnaðarráðuneyt­is­ins

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert
Loka