Eggjum kastað í ráðherrabifreið Björns Bjarnasonar

Björn Bjarnason.
Björn Bjarnason.

Björn Bjarnason dómsmálaráðherra segir á heimasíðu sinni í dag að óprúttnir aðilar hafi kastað eggjum í ráðherrabifreið sína, sem var lagt fyrir utan Alþingishúsið.

Þegar Björn mætti í þinghúsið í dag var fámennur hópur fyrir framan húsið og hélst í hendur „og heyrðist mér einhverjir púa, þegar ég gekk í áttina að dyrum skálans,“ skrifar Björn.

Björn segir að skömmu eftir að hann hafði sest til matar í Alþingisskálanum, hafi Jón Magnússon, þingmaður frjálslyndra, komið og spurt sig hvort ráðherrabíll fyrir utan væri á hans vegum. „Ég kvað já við því og sagði Jón mér þá, að kastað hefði verið í hann eggjum. Jón Geir, bílstjóri minn, fór á bílnum til að þrífa hann, en þegar ég gekk með Illuga Gunnarssyni alþingismanni  út úr skálanum var enginn sjáanlegur við þinghúsið,“ skrifar Björn.

„Á mbl.is er sagt frá því, að samtökin Nýir tímar hafi staðið fyrir þessum aðgerðum við þinghúsið en þau berjist fyrir því að ríkisstjórnin víki og tímabundin þjóðstjórn verði skipuð. Að það markmið náist með því að kasta eggjum í ráðherrabíla, finnst mér ólíklegt,“ skrifar Björn ennfremur.

Myndir voru birtar af eggjakastinu á vefnum ljosmyndakeppni.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka