Fatlaðir gjaldi ekki fyrir kreppuna

Frá útifundi á Austurvelli vegna efnahagskreppunnar
Frá útifundi á Austurvelli vegna efnahagskreppunnar mbl.is/Kristinn

Evrópusamtök fatlaðra (EDF) skora á Evrópuráðið og þingið og aðrar evrópskar stofnanir og stjórnvöld innan Evrópu, að tryggja að fatlað fólk og fjölskyldur þess muni ekki gjalda fyrir hina alþjóðlegu fjármálakreppu með minnkandi innkomu, bótum, tækifærum til atvinnu eða niðurskurði styrkja til félagasamtaka fatlaðra.

Í ályktun sem samþykkt var á fundi EDF í París á dögunum og Halldór Sævar Guðbergsson, formaður Öryrkjabandalags Íslands og Valgerður Ósk Auðunsdóttir ritari ÖBÍ sóttu, segir að kreppan sé til komin vegna óábyrgra lánveitinga og óásættanlegs gáleysis af hendi þeirra sem stjórna fjármálafyrirtækjum og þeirra eftirlitsaðila. Svar stjórnvalda við „skipbroti lánsviðskipta“ hafi verið að búa til fjármagn til að ganga í veð fyrir bankana. Núna þegar þetta vantraust breiðist yfir í almenna fjármálakerfið sé lífsnauðsynlegt að fátækir, aldraðir, fatlað fólk og fjölskyldur þeirra í Evrópu muni ekki gjalda fyrir þessa kreppu.

„Ástandið fyrir kreppu var ótryggt, því biðjum við um aukningu á útgjöldum til fjárfestingar í uppbyggingu á velferðarkerfinu, á bætur og ákvæði um skattaafslætti, svo að þessir hópar geti keypt vörur og þjónustu og með því bætt fjármálaástandið,“ segir í ályktun EDF.

Þá segir að niðurskurður og mikið atvinnuleysi muni búa til frjóan jarðveg fyrir ofbeldi, hatursglæpi, grafa undan samstöðu og framkalla hættuleg viðhorf til lýðræðis.

„Við skorum á þá sem bera ábyrgð á fjármálalegum ákvörðunum stjórnvalda að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að tryggja að komið verði fram við fatlað og fátækt fólk af jafnrétti og að fjármálastaða þeirra sé tryggð í þeim aðgerðum sem settar verða af stað á þessum tímum. Núna er tími mikilla aðgerða svo að árið 2010 – Ár gegn fátækt í Evrópu – verði fatlaðir og aðrir minnihlutahópar ekki aftur efst á dagskrá.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert