Foreldrar grunnskólabarna í Garðabæ hafa kært sveitarfélagið til menntamálaráðuneytisins vegna þeirrar ákvörðunar að taka ekki þátt í greiðslu skólamáltíða í grunnskólum bæjarins í samræmi við lög um grunnskóla (91/2008). Hver máltíð kostar á grunnskólabarn í Garðabæ 428 kr. en t.d. 235 kr. í Kópavogi og 200 kr. í Hafnarfirði.
Í kærunni kemur m.a. fram að í gjaldskrá bæjarins vegna skólamáltíða í grunnskólum Garðabæjar sé miðað við fullt verð fyrir máltíðina en ekki hráefniskostnað, líkt og tíðkast í öðrum sveitarfélögum og gert er ráð fyrir í athugasemdum með 23. grein laganna.
Foreldrar sem undirrita kæruna sendu bæjarstjórninni bréf 1. september síðastliðinn þar sem bent var á að sveitarfélagið færi ekki eftir nýjum grunnskólalögum vegna skólamáltíða grunnskólabarna. Farið var fram á að Garðabær leiðrétti stefnu sína í þessu máli og setti upp gjaldskrá sem miðaðist við hráefniskostnað. Bæjarráð Garðabæjar ályktaði um málið 9. september síðastliðinn í þá veru að gjaldtaka sveitarfélagsins færi ekki gegn ákvæðum nýju grunnskólalaganna. Á sama fundi var lögð fram gjaldskrá vegna skólamáltíða í grunnskólum bæjarins. Bæjarráð vísaði gjaldskránni til afgreiðslu bæjarstjórnar sem samþykkti hana 18. september s.l. Hún miðast við fullt verð en ekki hráefniskostnað.
Í kærunni kemur einnig fram að gjaldskrá fyrir aðkeypta skólamáltíð í Garðabæ er 428 kr. fyrir máltíðina. Þá er miðað við fasta mánaðarlega áskrift til nemenda fyrir heitar hádegismáltíðir. Það er fullt verð frá Skólamat ehf. Samkvæmt upplýsingum frá Skólamat ehf. sem birtar eru í kærunni borga nemendur í Kópavogi 235 kr. fyrir máltíðina og hafnfirsk grunnskólabörn borga 200 kr. fyrir máltíð samkvæmt vef Hafnarfjarðarbæjar. Reiknað er með að verð fyrir hvert grunnskólabarn í Reykjavík verði 270 til 300 kr. á máltíð.