Grái Golfinn fannst í Borgarnesi

Golfinn sem maðurinn tók í Reykjanesbæ og fannst í Borgarnesi.
Golfinn sem maðurinn tók í Reykjanesbæ og fannst í Borgarnesi.

„Hann stal veskinu mínu og notaði mitt ökuskírteini til að fá að "láni" bíla. Þá notaði hann kreditkortið mitt, keypti vörur fyrir einhverja tugi þúsunda, hótelgistingu og fleira. Hann fór greinilega víða. Þetta olli töluverðum óþægindum en ég verð ekki fyrir tjóni vegna þessa,“ segir maður sem var fórnarlamb bíræfins þjófs sem lögreglan í Borgarnesi handtók í hádeginu.

Maðurinn var þá á bíl sem stolið var frá Bílahúsinu í Reykjanesbæ á laugardaginn var. Maðurinn kom sunnan að og var á leið í gegnum Borgarnes þegar lögreglumenn í eftirlitsferð báru kennsl á bílinn. Maðurinn var alsgáður og hvorki veitti mótspyrnu né reyndi að komast undan lögreglunni við handtökuna.

Maðurinn kom í Bílahúsið í Reykjanesbæ á laugardaginn og vildi fá að reynsluaka bíl, gráum Volkswagen Golf, sem þar var til sölu. Maðurinn þáði kakó og meðlæti, talaði mikið og hrósaði góðum veitingum. Hann launaði síðan veitingarnar með því að hverfa á braut á bílnum og lét ekki sjá sig aftur á bílasölunni.

Samkvæmt upplýsingum lögreglunnar í Borgarnesi verður maðurinn hafður í haldi þar til lögregla höfuðborgarsvæðisins sækir hann og bílinn. Maðurinn var ekki yfirheyrður í Borgarnesi. Hann er fæddur 1972. Spurst hafði til bílsins á Akranesi áður en hann fannst í Borgarnesi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert