Hveiti hækkar

Verð á hveiti hefur hækkað um allt að 89% frá því í apríl, samkvæmt könnun Neytendasamtakanna. Meðaltalshækkun er 17% til 20% en verð hefur þó lækkað í einni verslun frá í vor. Hagkaup hefur lækkað hveitiverð um 13% frá því í apríl.

Mikið hefur verið fjallað um hækkun á heimsmarkaðsverði á hveiti síðastliðið ár. Neytendasamtökin könnuðu verð á Kornax hveiti í 2 kílóa umbúðum í 7 verslunum í apríl sl. Þá var verðmunur milli verslana allmikill enda einhver tilboð í gangi.

Neytendasamtökin ákváðu að kanna verðþróun á hveiti í þessum verslunum nú sjö mánuðum síðar. Hveitið heldur áfram að hækka og hækkar að meðaltali um 17-20% á milli kannana. Verðmunur er ekki jafn mikill á milli verslana og áður var og ein verslun, Hagkaup, hefur lækkað verð síðan í vor.

Lægsta verð á hveitinu samkvæmt könnun Neytendasamtakanna er í Bónus en þar kostar tveggja kílóa poki 228 krónur. Hæsta verðið er hjá 11-11 en þar kostar pokinn 398 krónur.

Verðhækkun frá því í apríl er mest hjá Fjarðarkaupum, hveitipokinn kostaði 129 krónur í apríl en kostar nú 244 krónur. Hækkunin er 89%.

Neytendasamtökin hvetja seljendur til að halda aftur af verðhækkunum og minnka álagningu þegar hægt er.

Heimasíða Neytendasamtakanna

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka