Má strax afnema eftirlaunalög

Ögmundur Jónasson
Ögmundur Jónasson mbl.is/ÞÖK

„Við getum náð þessu fyrir hádegi á fimmtudag, ef það er vilji til þess,“ segir Ögmundur Jónasson, þingflokksformaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, um eftirlaunalögin svonefndu. Lög um eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara voru samþykkt á Alþingi skömmu fyrir jól 2003, en þau hafa alla tíð verið umdeild.

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar frá 2007 segir að endurskoða eigi eftirlaunakjör alþingismanna og ráðherra og koma á meira samræmi í lífeyrismálum. Á þessu ári hafa formenn flokkanna unnið að endurskoðun laganna, en engin niðurstaða hefur fengist. Í fyrrahaust lagði Valgerður Bjarnadóttir, þingmaður Samfylkingar, fram frumvarp um breytingar á eftirlaunalögunum, sem ekki fékk afgreiðslu. Markmiðið var að forréttindi alþingismanna, ráðherra og hæstaréttardómara til lífeyriskjara yrðu afnumin.

Í haust lagði þingflokkur Vinstri grænna fram frumvarp sem Ögmundur Jónasson segir efnislega svipað frumvarpi Valgerðar. Í báðum frumvörpunum er gert ráð fyrir að þau réttindi sem menn hafa þegar unnið sér inn haldi gildi sínu. Hann kveðst telja að ríkisstjórnin komist varla upp með annað en að leggja fram nýtt frumvarp fyrir jól.

Árni Páll Árnason, þingmaður Samfylkingar, hefur talað fyrir afnámi laganna.

Spurður um hvort hann telji líklegt að meirihluti geti fengist fyrir því á þingi að fella lögin úr gildi, segir Árni Páll erfitt að átta sig á því. „Mér finnst mjög fáir [þingmenn] tala um þetta,“ segir hann.

Sjálfur sé hann reiðubúinn að ganga lengra en gert er í frumvarpi Valgerðar Bjarnadóttur frá í fyrra með því að afnema líka áunnin lífeyrisréttindi. Þá geti þeir sem telja sig misrétti beitta sótt sitt mál fyrir dómi. „Þá vitum við hvaða lið það er,“ segir hann.

Valgerður Sverrisdóttir, formaður Framsóknarflokksins, telur Samfylkinguna bera mesta ábyrgð á að málið sé ekki komið lengra. Með frumvarpinu fyrra, sem ekki hafi verið borið undir samstarfsflokkinn, hafi Samfylkingin „þjófstartað“ málinu. Málið virðist í hnút á milli stjórnarflokkanna og því ólíklegt að gengið verði frá því fyrir jól.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert