Meirihluti þeirra sem tóku þátt í könnun sem Capacent Gallup gerði fyrir Samtök iðnaðarins er hlynntur aðild að Evrópusambandinu. Alls eru 51,8% hlynnt aðild að Evrópusambandinu og 62,4% eru hlynnt því að teknar verði upp aðildarviðræður við sambandið.
Alls eru 36,3% mjög hlynnt aðildarviðræðum og 26,1% frekar hlynnt, alls 62,4%. 22,2% eru andvíg viðræðum um aðild að Evrópusambandinu. Enn fleiri eru fylgjandi því að taka upp evru eða 63,8%.
Á vef Samtaka iðnaðarins kemur fram að meðal stuðningsmanna Samfylkingarinnar eru 81% hlynntir aðild en 3% andvígir. Meðal stuðningsmanna Framsóknarflokksins eru 59% hlynntir en 31% andvígir.
Meðal stuðningsmanna Frjálslynda flokksins eru 50% hlynntir en 28% andvígir. Meðal stuðningsmanna Vinstri grænna eru 45% hlynntir en 34% andvígir. Meðal stuðningsmanna Sjálfstæðismanna eru 24% hlynntir aðild en 54% andvígir.